Hraunavinir bíða nú eftir niðurstöðu Hæstaréttar í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness sem hafnaði í síðasta mánuði kröfu um að málinu á hendur þeim yrði vísað frá dómi, en níu Hraunavinir voru ákærðir fyrir að brjóta lögreglulög í október sl. er þeir mótmæltu vegaframkvæmdum í Garðahrauni.
Alls voru níu Hraunavinir ákærðir í málinu. Einn þeirra fór fram á að málinu yrði vísað frá dómi og var málið flutt sem prófmál sem myndi hafa áhrif á niðurstöðu hinna átta. Einnig var farið fram á að saksóknarinn í málinu, Karl Ingi Vilbergsson, yrði látinn víkja sökum vanhæfis og að af honum yrði tekin vitnaskýrsla.
Munnlegur málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjaness 24. mars og þann 7. apríl lá úrskurður héraðsdóms fyrir þar sem dómari hafnaði öllum kröfum Hraunavina. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar tveimur dögum síðar.
Í dag eru fjórar vikur liðnar frá því málið var kært og má búast við að dómur Hæstaréttar liggi fyrir fljótlega að sögn Skúla Bjarnasonar, lögmanns fjögurra Hraunavina, en hann flutti málið í héraði.
Níumenningunum er öllum gefið að sök að hafa brotið lögreglulög, n.t.t. gerst brotlegir við 19. grein laganna, sem snýst um skyldu til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Hún er svohljóðandi: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“