Íslenskur nemandi efstur í Norrænu stærðfræðikeppninni

Hjalti Þór Ísleifsson, Sigurður Jens Albertsson, Kristján Andri Gunnarsson og …
Hjalti Þór Ísleifsson, Sigurður Jens Albertsson, Kristján Andri Gunnarsson og Garðar Andri Sigurðsson verða hluti af sex manna liði Íslands á Ólympíuleikum í stærðfræði í Suður-Afríku í sumar.

Sigurður Jens Albertsson, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík, er annar tveggja sigurvegara í Norrænu stærðfræðikeppninni en keppnin fór fram á öllum Norðurlöndunum mánudaginn 31. mars síðastliðinn og tóku 76 keppendur þátt. Sigurður Jens og Norðmaðurinn Johan S. Wind urðu efstir með 16 stig af 20 mögulegum.

Þetta er í fjórða skipti sem Íslendingur er í fyrsta sæti í Norrænu stærðfræðikeppninni en áður hafa Marteinn Þór Harðarson árið 1999, Bjarni V. Halldórsson árið 1993 og Geir Agnarsson árið 1987 náð þessum árangri.

Sigurður Jens er einn þeirra sex nemenda sem skipa Ólympíulið Íslands í stærðfræði. Auk hans eru þeir Kristján Andri Gunnarsson, Garðar Andri Sigurðsson, Hjalti Þór Ísleifsson og Dagur Tómas Ásgeirsson úr MR og Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson úr MA í liðinu sem keppa mun fyrir Íslands hönd í Suður-Afríku í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert