Ákærðir í þriðja sinn

mbl.is/Ómar

Sérstakur saksóknari hefur ákært þrjá fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, þá Hreiðar Má Sigurðsson, Sigurð Einarsson og Magnús Guðmundsson vegna viðskipti bankans fyrir efnahagshrunið. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is.

Þeim var birt ákæran í gær en hún verður ekki birt opinberlega fyrr enn á föstudag. Málið gegn þeim verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní nk.

Fram kemur á vef RÚV að ákæran snúist um um tugmilljarða króna lánveitingar vegna viðskipta með skuldatryggingar á bankann fyrir hrun. 

Fram kemur að Hreiðari Má, sem er fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurði Einarssyni, fyrriverandi stjórnarformanni bankans, sé gefið að sök umboðssvik. Herma heimildir RÚV að þeir hafi misnotað aðstöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga. 

Magnúsi, sem er fyrrverandi yfirmaður Kaupþings í Lúxemborg, er ákærður fyrir hlutdeild að brotum Hreiðars og Sigurðar. 

Í desember sl. dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þremenningana auk Ólafs Ólafssonar, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, í fangelsi í tengslum við Al Thani-málið svokallaða, en þeir voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður í fimm ára fangelsi, Magnús fékk þrjú ár og Ólafur fékk þriggja og hálfs árs dóm.

Aldrei hafa svo þungir dómar fallið í efnahagsbrotamáli á Íslandi.

Fjórmenningarnir áfrýjuðu dómnum til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert