Vegna frétta um ákærur í samráðsmáli Húsasmiðjunnar og Byko vill Samkeppniseftirlitið árétta að málið sé tvíþætt, að hluta til rannsóknar hjá lögreglu og að hluta hjá Samkeppniseftirlitinu.
„Brot á banni samkeppnislaga við samráði fyrirtækja getur annars vegar varðað starfsmenn og stjórnarmenn refsingu og hins vegar fyrirtæki stjórnvaldsviðurlögum. Lögregla rannsakar þátt einstaklinga og Samkeppniseftirlitið aðgerðir fyrirtækja,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið haft til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði, en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum.
„Samkeppniseftirlitið hefur nú sent andmælaskjal til þeirra sem eru í fyrirsvari í málinu gagnvart Byko og Húsasmiðjunni. Andmælaskjal hefur að geyma lýsingu á atvikum málsins og frumniðurstöðu um ætluð brot. Með andmælaskjalinu er hlutaðeigandi fyrirtækjum gefið ítrasta tækifæri til að kynna sér málið og nýta sér andmælarétt sinn,“ segir í tilkynningunni.
„Í framhaldinu mun Samkeppniseftirlitið vinna úr sjónarmiðum aðila og taka ákvörðun í málinu. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær ákvörðun liggur fyrir, en það ræðst m.a. af viðbrögðum umræddra fyrirtækja.“
Upphaf málsins má rekja til húsleita sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, framkvæmdi í húsnæði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, þann 8. mars 2011. Áður hafði Samkeppniseftirlitið kært málið til efnahagsbrotadeildarinnar.
Sjá einnig: Ákært vegna samráðs