Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var í Hæstarétti í dag dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að miðla trúnaðargögnum um alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson til dagblaðsins DV. Þá var Þórarinn Már Þorbjörnsson, fyrrverandi starfsmaður Landsbankans, dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt vegna sama máls.
Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Gunnari og Þórarni sumarið 2012. Þeir voru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd. Gunnar var talinn hafa nýtt sér aðstöðu sína til að ná í upplýsingar úr Landsbankanum um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í gegnum Þórarin Má. Þeim gögnum var komið til Ársæls Valfells, lektors við Háskóla Íslands, sem aftur kom þeim til DV sem birti frétt byggða á gögnunum.
Gunnar var sakfelldur fyrir alvarlegt trúnaðarbrot þegar hann gegndi stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem hafi það hlutverk að sjá til þess að fjármálastarfsemi í landinu sé í samræmi við lög og reglur.