Nokkrir starfsmenn Húsasmiðjunnar hafa verið ákærðir í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á meintum samkeppnislagabrotum. Yfirstjórn og eigendur Húsasmiðjunnar munu á næstunni kynna sér efni þeirra ákæra sem snerta núverandi starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. og meta í framhaldi hvort ástæða sé til sérstakra viðbragða.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Húsasmiðjan hefur sent á fjölmiðla.
Þar segir, að þau atvik sem urðu tilefni afskipta Samkeppniseftirlitsins hafi átt sér stað áður en danska byggingavörukeðjan Bygma Gruppen A/S keypti rekstur og eignir Húsasmiðjunnar af Framtakssjóði Íslands í desember 2011.
„Eins og fram kom í fréttum á þeim tíma var tekið fram í kaupsamningi að fyrri eigendur Húsasmiðjunnar tækju ábyrgð á skuldbindingum gagnvart íslenskum yfirvöldum vegna mögulegrar sektar vegna meintra samkeppnislagabrota sem Samkeppniseftirlitið hafði til meðferðar.
Nýtt félag um rekstur Húsasmiðjunnar tók til starfa í ársbyrjun árið 2012 og er félagið hluti af Bygma samstæðunni. Nýr forstjóri var ráðinn til starfa hjá Húsasmiðjunni sumarið 2013 og nokkrar breytingar hafa orðið á yfirstjórn fyrirtækisins. Húsasmiðjan og Bygma samstæðan í heild hefur að leiðarljósi að stunda ávallt virka samkeppni,“ segir í tilkynningunni.
„Stjórnendur og starfsmenn Húsasmiðjunnar hafa á undanförnum þremur árum hlotið reglulega fræðslu um samkeppnismál og samkeppnisrétt frá óháðum fagaðilum. Ákærur sérstaks saksóknara eru fyrirtækinu mikil vonbrigði og þeim starfsmönnum sem í hlut eiga afar þungbærar. Það er einlæg von eigenda og yfirstjórnar Húsasmiðjunnar að niðurstaða dómstóla verði á þann veg að ekki séu tilefni til sakfellingar einstaklinga vegna þessara mála,“ segir ennfremur.