Snarpur skjálfti við Hestfjall

Upptök skjálftans voru austsuðaustur af Hestfjalli í Grímsnesi.
Upptök skjálftans voru austsuðaustur af Hestfjalli í Grímsnesi. Kort/Veðurstofa Íslands

Snarpur jarðskjálfi sem mældist 4,0 stig á Richter varð á Suðurlandi kl. 23:14 í kvöld. Upptök skjálftans voru austsuðaustur af Hestfjalli í Grímsnesi og varð hans víða vart. „Fyrst heyrðist höggbylgja og svo kom rosalegt högg,“ segir íbúi á Selfossi sem mbl.is ræddi við fyrir stundu.

Annar skjálfti varð á sömu stundu við Hveragerði. Styrkleiki hans var 2,3 stig.

Íbúar í uppsveitum Árnessýslu, Rangárvallasýslu og víðar fundu einnig fyrir stærri skjálftanum. Að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur jarðváreftirlitsmanns hjá Veðurstofu Íslands, hafa tilkynningar einnig borist frá Hafnarfirði, Borgarnesi og Reykjavík. Veðurstofan fylgist náið með framvindu mála.

Vöknuðu við skjálftann

„Það var eins og bíll keyrði á húsið. Þetta var talsverða stund að ganga yfir. Við vorum sofnuð en vöknuðum við skjálftann,“ sagði Ragnhildur Sævarsdóttir, á Hjálmsstöðum í Laugardal.

Í Fljótshlíð vöknuðu íbúar einnig við skjáltann.

Óli Már Aronsson, fréttaritari Morgunblaðsins á Hellu, sagði skjálftann hafa varað í skamma stund.

„Ég sat inni í tölvuherbergi. Mér fannst vera einhver hristingur fyrst. Ég vissi áður en hann kom, að það væri að koma skjálfti. Það hristist allt en það datt ekkert niður hjá mér úr hillum. Sumir hafa lýst því þannig að það hefði verið eins og ef bíll keyrði á húsið.“

Spurður hvort eitthvað sé vitað um eignatjón segir Óli Már ekkert vitað um tjón. Íbúar á Hellu hafi deilt upplýsingum um málið á Facebook og þar hafi ekkert slíkt komið fram.

Selfyssingar fundu vel fyrir skjálftanum í kvöld.
Selfyssingar fundu vel fyrir skjálftanum í kvöld. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert