Krefur Hjördísi Svan um bætur

Ítarlegt viðtal var við Hjördísi Svan í Nýju lífi á …
Ítarlegt viðtal var við Hjördísi Svan í Nýju lífi á síðasta ári.

Kim Laursen, barnsfaðir Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur, hefur sett fram einkaréttarkröfu um skaðabætur að upphæð 100.000 danskra króna, ríflega 2 milljóna íslenskra króna. Kim og Hjördís hafa átt í áralangri forræðisdeilu vegna þriggja dætra þeirra sem Kim var dæmd fullt forræði yfir árið 2012.

Saksóknari í Danmörku ákærði Hjördísi fyrir brot á 215. grein danskra hegningarlaga, fyrir að hafa tekið barn af réttmætum forsjáraðila. Hún hefur setið í gæsluvarðhaldi í Danmörku síðan í febrúar, en málið er nú fyrir rétti í Kolding í Danmörku.

„Það var hræðileg lífsreynsla að vera slitinn frá börnunum mínum,“ hefur danska blaðið Metroxpress eftir Kim frá réttarhöldunum.

Þar var þó einnig kallaður til vitnis starfsmaður af leikskólanum þar sem yngsta dóttirin dvaldi í 10 mánuði. „Hún sagði oft að pabbi hennar væri reiður, sparkaði, kýldi og öskraði ljót orð,“ hefur blaðið eftir leikskólastarfsmanninum.

Þá bar vinkona Hjördísar vitnisburð um að yngsta dóttirin hefði greint frá því að pabbi hennar hefði stungið fingrum í kynfæri hennar.

Sjálfur hefur Kim sagt fyrir réttinum að Hjördís hafi fengið stúlkurnar til að segja um hann hluti sem ekki séu sannir.

Að sögn Metroxpress lýkur réttarhöldunum á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert