Myndbandsupptaka sem sýnir hópnauðgun í Breiðholti sem kærð var á miðvikudag er í dreifingu á netinu. Þetta herma heimildir mbl.is. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagðist í samtali við blaðamann ekki geta tjáð sig um þetta atriði að svo stöddu.
Fimm piltar á aldrinum 17 – 19 ára voru handteknir á miðvikudagskvöld, grunaðir um að hafa nauðgað 16 ára stúlku í samkvæmi í austurhluta borgarinnar um helgina. Kæra í málinu var lögð fram síðdegis á miðvikudag.
Piltarnir voru handteknir strax í kjölfar þess að kæra var lögð fram í málinu og hefur lögregla lagt fram kröfu um einnar viku gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Piltarnir verða áfram í haldi lögreglu þar til úrskurður dómara liggur fyrir en það verður fyrir hádegi í dag.
Frétt mbl.is: Grunaðir um hópnauðgun