Icelandair hefur fellt niður 11 ferðir félagsins á morgun, sunnudag 11. maí, vegna verkfallsaðgerða flugmanna. Icelandair hafði áður fellt niður 30 ferðir í gær vegna þeirra.
„Skæruaðgerðir flugmanna hafa valdið verulegri seinkun á flugi Icelandair í dag og vegna þeirra er ljóst að fella verður niður 11 flugferðir félagsins á morgun. Það er flug til og frá Glasgow (FI430/FI431), Kaupmannahöfn (FI204/FI205) Helsinki (FI342/FI343), Amsterdam (FI502/503), London Heathrow (FI450/FI451) og Bergen/Stavanger (FI338).
Vegna aðgerða flugmanna má búast við frekari röskun á flugi og að einstök flug þurfi að fella niður með skömmum fyrirvara,“ segir í fréttatilkynningu frá Icelandair.
Icelandair mun eftir fremsta megni reyna að leysa úr þeim vanda sem niðurfelling flugsins skapar viðskiptavinum m.a. með því að flytja þá yfir á flug annarra flugfélaga eins og hægt er, einnig að færa farþega á aðrar ferðir Icelandair til og frá þessum áfangastöðum ef það er unnt eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Þeir sem hætta við ferð sína munu fá endurgreitt. Nánari upplýsingar eru á Icelandair.is.
„Um leið og við biðjum viðskiptavini velvirðingar á þessari röskun þá vil ég koma á framfæri þakklæti til þeirra fyrir þann skilning og þolinmæði sem þeir sýna við erfiðar aðstæður,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.