„Það ber gríðarlega mikið á milli í fjárhæðum og ég get alveg játað að ég hef ekki sem heilbrigðisráðherra úr digrum sjóðum að moða og hef leitað leiða til þess í gildandi fjárlögum að fjármagna þær óskir og kröfur sem sveitarfélögin hafa gert um greiðslur til viðbótar þeim greiðslum sem bundnar eru í fjárlögum. Það er ekki í hendi og meðan svo er verður þetta í þessari pattstöðu.“
Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Spurði Árni ráðherrann að því hvort hann hefði verið í einhverjum samskiptum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu varðandi fyrirkomulag sjúkraflutninga síðan sérstök umræða fór fram um málið á Alþingi í janúar síðastliðnum. Óskaði hann ennfremur eftir sýn ráðherrans á framvindu málsins og endalok þess.
Kristján sagði það markverðasta sem gerst hefði frá umræðunni á Alþingi í janúar væri að slökkviliðið hefði sent erindi til ráðuneytisins þar sem óskað hefði verið eftir því að hefja verklok. Síðan hafi verið skipst á skoðunum og mikið bæri á milli sem fyrr segir. Þegar erindið hafi borist hafi hann leitað leiða til undirbúnings fyrir þá stöðu og átt viðræður við Landspítalann, Neyðarlínuna og lögregluna.
„Staða málsins er einfaldlega sú að fjárheimildirnar sem þarf til að uppfylla þær kröfur sem stjórn slökkviliðsins gerir á hendur ráðuneytinu til að standa undir þeim kostnaði sem slökkviliðið telur sig bera af þessum þjónustuþætti, svigrúm til að mæta þeim er ekki fyrir hendi og það hefur ekki fundist rými til þess enn.“
Árni Þór sagði máli valda sér miklum vonbrigðum og áhyggjum. Spurði hann ráðherrann hvort hann væri að skoða aðrar leiðir til þess að tryggja sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu en að semja við slökkviliðið. Kristján sagðist engan áhuga hafa á að gera þar breytingar á. Þó gæti komið upp sú staða að það reyndist nauðsynlegt. Slíkar viðræður hefðu farið fram sem þó hefðu ekki borið árangur.
„Bilið er það stórt og mikið að það kostar töluverð átök, og þá á öðrum sviðum, að verða við þessum óskum. Ég minni til dæmis á það í umræðunni hér að við höfum þá stöðu uppi í fjárlögum ársins að hafa þurft að skerða fjárframlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þá skýtur það í mínum huga nokkuð skökku við ef við þyrftum að fara að færa hugsanlega fjármuni þaðan úr því málasviði sem heyrir undir mitt ráðuneyti inn í samninga um slökkviliðið. Þetta er vandinn í hnotskurn sem við stöndum frammi fyrir en á þessu stigi hafa þreifingar og viðræður ekki borið árangur,“ sagði Kristján.