Gæsluvarðhald yfir piltunum staðfest

Fangaklefi í Hegningarhúsinu.
Fangaklefi í Hegningarhúsinu. Júlíus Sigurjónsson

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að fjórir piltar sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Fimmti pilturinn sem er í haldi kærði ekki úrskurð héraðsdóms.

Piltarnir verða í haldi fram á fimmtudaginn næstkomandi. Þeir eru á aldrinum 17 til 19 ára og grunaðir um að hafa allir haft samræði við stúlku á 17. aldursári í samkvæmi í Breiðholti um síðustu helgi, gegn hennar vilja.

Þá hefur verið greint frá því að lykilgagn í málinu sé myndbandsupptaka sem sýnir hópnauðgunina. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur henni einnig verið dreift manna á milli með hjálp netsins.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í gær að rannsókninni miðaði vel.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á að gæsluvarðhaldið verði framlengt yfir piltunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka