Hjördís Svan Aðalheiðardóttir var í morgun dæmd í eins og hálfs árs fangelsi fyrir brot á umgengnisrétti yfir börnum sínum þremur og ólöglegt brottnám þeirra frá Danmörku til Íslands.
Helle Ivarssen saksóknari í Horsens staðfesti þetta við fréttastofu RÚV en Vísir greindi fyrst frá málinu. Hjördís hefur setið í gæsluvarðhaldi í Danmörku í rúma þrjá mánuði.
Kim Laursen og Hjördís hafa átt í áralangri forræðisdeilu vegna þriggja dætra þeirra sem Kim var dæmt fullt forræði yfir árið 2012.
Áður en Hjördís var úrskurðuð í gæsluvarðhald var hún sett í fjögurra vikna langt farbann í landinu á meðan mál hennar, er varðar för hennar með börn sín til Íslands síðasta sumar, er til meðferðar fyrir dómstólum.
Hjördís var ákærð fyrir brot á 215. grein danskra hegningarlaga. Greinin snýr að því þegar einstaklingur, í þessu tilviki Hjördís, tekur barn af réttmætum foreldrum sínum eða forsjáraðila. Verður hún einnig ákærð fyrir brot á annarri milligrein 215. greinar, en hún snýr að því þegar manneskja tekur barn undir 18 ára aldri ólöglega með sér til annars lands. Hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er fjögur ár.