Sýning Íslensku óperunnar á Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson, sem Íslenska óperan sýndi í vor, hlaut gríðarlega góðar viðtökur. Alls urðu sýningar níu talsins, allar fyrir fullu húsi og áhorfendur vel á þrettánda þúsund.
Ýmsir erlendir óperuunnendur lögðu leið sína til landsins til að sjá verkið og hafa nú birst lofsamlegar umsagnir um óperuna í erlendum óperutímaritum, segir í fréttatilkynningu frá Óperunni.
Breska mánaðarritið Opera Now, sem dreift er um allan heim, gefur óperunni fjórar stjörnur af fimm mögulegum og fer fögrum orðum um höfundana, söngvarana og listræna stjórnendur. Hljómsveit Íslensku óperunnar er sögð spila frábærlega undir stjórn Petris Sakaris. Gagnrýnandi tímaritsins hrósar sérstaklega aðalsöngvurunum þremur, Þóru Einarsdóttur, Viðari Gunnarssyni og ekki síst Elmari Gilbertssyni en lýsir einnig hrifningu sinni á Elsu Waage, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Jóhanni Smára Sævarssyni. Hann lýkur umsögn sinni með því að segja að óperan eigi svo sannarlega skilið að vera sýnd erlendis.
Þá birtist í maíhefti þýska tímaritsins Opern Welt áberandi og jákvæð umsögn þar sem verkinu öllu, tónlist og texta, helstu söngvurum, leikstjóra og hljómsveitarstjóra er hrósað. Talað er um að tónlistin sé undir örlitlum áhrifum frá Verdi og Massenet og töluverðum áhrifum frá Puccini. En tónskáldið semji óperuna engu að síður út frá eigin brjósti. Hún sé afskaplega rómantísk og höfundur reyni ekki að draga nokkra dul á það. Vinna textahöfundarins sé samþjöppuð og spennandi. Gagnrýnandi lýsir hrifningu sinni á aðalsöngvurunum, Þóru, Viðari og Jóhanni Smára og segir Elmar Gilbertsson algera uppgötvun.
Einnig hafa birst lofsamlegar greinar og viðtöl í erlendum dagblöðum um sýninguna.