Myndbandsupptaka af meintri hópnauðgun, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð 16 ára stúlku sem kærði nauðgunina, að mati Héraðsdóms Reykjavíkur. Piltarnir, sem eru á aldrinum 17-19 ára, segjast hafa talið að stúlkan væri samþykk kynmökum.
Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhaldskröfu yfir piltunum fimm, en Hæstiréttur staðfesti í dag að þeir skyldu sitja í gæsluvarðhaldi til 15. maí.
Er það m.a. rökstutt með því að rannsóknin sé á frumstigi. Ekki liggi fyrir glögg mynd af atburðarásinni og ekki hafi verið teknar skýrslur af nokkuð mörgum vitnum sem kunni að geta gefið nánari upplýsingar um mikilvæg atriði.
Ríkir rannsóknarhagsmunir felist í því að piltarnir sitji í gæsluvarðhaldi á meðan, því gangi þeir lausir á þessu stigi rannsóknar sé raunveruleg hætta á að þeir hafi áhrif á vitni eða aðra sakborninga í málinu.
Piltarnir sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Þrír þeirra eru undir 18 ára aldri. Í barnaverndarlögum er mælt fyrir um að ólögráða einstaklingur verði ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald ef önnur úrræði geti komið í þess stað, en fram kemur í niðurstöðu dómsins að í ljósi atvika, rannsóknarhagsmuna og með hliðsjón af alvöru brotsins komi önnur úrræði en gæsluvarðhald ekki að gagni.
Stúlkan, sem er 16 ára, lagði sjálf myndbandsupptökuna fram þegar hún kærði hópnauðgunina, sem mun hafa átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí. Í kjölfarið voru piltarnir handteknir og lagt hald á síma þeirra og tölvur.
Þeir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda, að því er fram kemur í úrskurði Héraðsdóms.
Þar segir jafnframt að fram sé kominn rökstuddur grunur um að fimmmenningarnir hafi þvingað stúlkuna til þess að þola það að þeir hefðu allir við hana samfarir í svefnherbergi í íbúðinni. Ekki þykir vafi á því að þeir hafi verið „allir á sama tíma í svefnherberginu og hjálpast að við að færa stúlkuna úr fötunum á meðan þeir höfðu við hana samfarir“.