„Simon Cox rannsakaði málið sem sagt er vera blettur á réttarsögu Íslendinga og kynntist því hvernig manneskja játaði á sig morð á manni sem hún hafði aldrei hitt.“ Þetta kemur fram í kynningu á þættinum Játningarnar í Reykjavík sem sendur verður út í breska ríkisútvarpinu, BBC, í fyrramálið.
Þátturinn fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálin en bresku fjölmiðlamennirnir Simon Cox og Helen Grady komu til Íslands 24. mars síðastliðinn til að vinna að gerð þáttarins. Í samtali við Morgunblaðið sögðu þau að helst hafi vakið athygli þeirra löng einangrun sem sakborningar í málinu voru látnir þola meðan á rannsókn málsins stóð. Líktu þau aðstæðum sakborninga við fanga bandaríska hersins í Guantánamo-fangelsinu.
Þátturinn mun þó ekki fjalla sérstaklega um það atriði heldur verður leitast við að segja sögu málsins sjálfs og rannsóknar þess frá sem flestum hliðum. Í viðtalinu við Morgunblaðið kom einnig fram að þeim kom á óvart hversu auðvelt það er að ná sambandi við fólk hér á landi. Það hafi auðveldað til muna vinnslu þáttarins.
Þættinum verður útvarpað á BBC Radio 4, klukkan tíu að íslenskum tíma.
Hér má lesa meira um þátt BBC um Guðmundar- og Geirfinnsmálin.