Mælt fyrir lögum gegn verkfalli flugmanna

Hanna Birna Kristjánsdóttir mælti fyrir frumvarpi að lögum um frestun …
Hanna Birna Kristjánsdóttir mælti fyrir frumvarpi að lögum um frestun verkfallsaðgerða flugmanna í kvöld. mbl.is/Eggert

Áætlað tekjutap á hverjum degi verkfallsaðgerða flugmanna Icelandair er 900 milljónir króna. Þetta kemur fram í frumvarpi, sem Hanna Birna Kristjánsdóttir mælti fyrir á Alþingi í kvöld, til laga um frestun verkfallsaðgerða flugmanna hjá Icelandair.

Að loknum eldhúsdagsumræðum í kvöld hófst þingfundur þar sem á dagskrá var frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair. Innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu og standa umræður enn yfir.

Hanna Birna tók fyrir það í umræðum á Alþingi í kvöld að lögin hefðu fordæmisgildi fyrir aðrar stéttir. „Það er algjörlega hægt að treysta því af hálfu þeirrar sem hér stendur að það verður ekki á minni vakt gengið til þessara verka nema í algjörri neyð og við metum það núna svo að það sé algjör neyð og ekkert annað í boði. Það segir ekkert til um það hvað verður í öðrum deilum, ekki neitt.“

900 milljónir á dag

Samkvæmt frumvarpinu verða verkfallsaðgerðir sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna hóf gegn Icelandair 9. maí óheimilar, frá gildistöku laganna. Deiluaðilum verður heimilt að semja um kjaramál, en óheimilt verður að knýja fram kjarabætur með vinnustöðvun.

Hafi deiluaðilar ekki náð samkomulagi þann 15. júlí skal gerðardómur grípa inn í og ákveða kaup og kjör flugmanna Icelandair, fyrir 15. september.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að ljóst sé og ótvírætt að gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir séu í húfi. Verkfallsaðgerðirnar nái til 300 flugmanna Icelandair, hafi áhrif á um 600 flug til og frá landinu og 100.000 farþega félagsins þá 9 daga sem tímabundin vinnustöðvun nær til. 

Áætlað tekjutap á hverjum degi verkfallsaðgerða nemi um 900 milljónum króna. Eru þar lagðar saman gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar og beinar skatttekjur hennar, miðað við uppreiknaðar tölur frá maí og júní 2013. Hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu á þessu tímabili er rúmlega 70%.

„Ferðaþjónustan og afleiddar atvinnugreinar eiga því hér mikið undir,“ segir í athugasemdum við frumvarpið. Verkfallsaðgerðirnar hafi nú þegar skapað mikla óvissu í ferðaþjónustunni, sem sé viðkvæm atvinnugrein sem megi við litlum áföllum.

„Eftir því sem röskun á fluginu eykst verður greinin fyrir meiri skaða. Söluaðilar erlendis fylgjast grannt með stöðu mála þar sem þeir íhuga að aflýsa ferðum til landsins vegna þessarar óvissu. Áhrifa þessara verkfallsaðgerða kann því að gæta langt fram í tímann,“ segir í athugasemdum við frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert