Dregið hefur úr innlögnum á sjúkrahúsið Vog og meðferðarstöðvarnar á Staðarfelli og í Vík vegna vinnustöðvana sjúkraliða og starfsmanna SFR. Göngudeildir SÁA í Reykjavík og Akureyri eru lokaðar í dag og voru það einnig sl. mánudag þegar vinnustöðvun stóð yfir frá kl. 8 til 16.
Hjalti Björnsson, dagskrárstjóri SÁÁ, segir að vinnustöðvanirnar hafi skapað óróleika hjá sjúklingunum. „Ráðgjafarnir lögðu allir niður störf í dag og því er miklu minni þjónusta,“ segir Hjalti.
Læknarnir hjá SÁÁ taka inn færri sjúklinga vegna vinnustöðvunarinnar og fyrirhugaðs allsherjarverkfalls. Af og til koma til bráðainnlagnir í gegnum lögreglu en ekki er hægt að taka sjúklinga inn á þann hátt á meðan vinnustöðvun stendur yfir.
Hjalti gagnrýnir undanþágulista sem liggja fyrir fyrir hverja stofnun og segir að stéttarfélögin, Félag sjúkraliða og SFR, virði ekki þá lista sem lágu fyrir.
„Aðeins er gefin undanþága fyrir brot af þeim starfsmönnum sem við höfðum á þessum lista. Listinn var tilbúinn og við héldum að farið yrði eftir honum, veitt yrði undanþága fyrir ákveðinn fjölda starfsmanna, en listinn var einhliða búinn til af stéttarfélaginu,“ segir Hjalti.
Kærur vegna listans fara fyrir Félagsdóm í dag og mun þá liggja fyrir hversu marga starfsmenn SÁÁ má hafa ef til allsherjarverkfalls kemur. Undanþágulistinn er búinn til reglulega fyrir allar stofnanir landsins en þar kemur fram hverjir megi starfa ef komi til verkfalls.
„Ákveðinn hluti af fólkinu þarf þessa umönnun og þjónustu og það er engin leið að setja það út á götu. Það þarf að vera ákveðinn mannskapur til að halda uppi öryggi á kvöldin og á nótunni. Þess vegna liggja listarnir fyrir,“ segir Hjalti. „Verkfallið bitnar fyrst og fremst á þeim veikustu, það er ekki fallegt.“
Almennur félagsfundur hjá FÁR, félagi áfengis og vímuefnaráðgjafa, sendi frá sér ályktun á þriðjudag. Þar kom fram að fundurinn lýsti vanþóknun sinni á því að SFR skuli ekki vilja vinna með löglega kjörinni stjórn FÁR og kjararáði sem á að gæta hagsmuna félagsmanna FÁR og sjá um kröfugerð fyrir kjarasamninga.„Það er okkur með öllu óskiljanlegt að SFR skuli ekki fara að lögum og synja formanni kjararáðs um aðkomu að samningsborðinu,“ sagði í ályktuninni.
„Við hörmum þær aðgerðir og verkföll sem nú eru í framkvæmd sem fyrst og fremst bitnar á veikum alkóhólistum og vonum að félagið snúi af þeirri óheillabraut nú þegar og gangi að samningsborðinu af heilindum og kalli eftir kjararáði FÁR til samstarfs.
Harkalegar aðgerðir sem leiða til lokunar deilda eru með öllu óskiljanlegar. Sömuleiðis að félagið virði ekki umsaminn og auglýstan lista um undanþágur í verkföllum.
Það er mat okkar að vera okkar í SFR hafi oftast verið til góðs en með þessari framkomu þá skorti töluvert á traust og virðingu. Þá er það ljóst að eftir þessa samningalotu þá þarf SFR forystan að gefa okkur skýringar á þessu hátterni. Við viljum vera í stéttarfélagi þar sem forystumennirnir treysta sér til að vinna með félaginu og stjórn þess, félagsmönnum til heilla,“ sagði í ályktuninni.
Vinnustöðvunin hjá SÁÁ kemur til vegna kjaradeilu félagsmanna SFR og Sjúkraliðafélags Íslands við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Að óbreyttu mun starfsemi á Vogi, Staðarfelli og Vík stöðvast ef til allsherjarverkfalls kemur
Enginn samningafundur hefur verið boðaður í deilunni, að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands. Um 300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands sem verkfallið nær til ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR.
Engin lausn náðist í kjaradeilu Sjúkraliðafélags Íslands og SFR við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu í gær og stendur því verkfall yfir milli 8 og 16 í dag. Ef ekki verður búið að semja hafa sjúkraliðar boðað sólarhringsverkfall þann 19. maí og allsherjarverkfall þann 22. maí verði enn ósamið.