Lausir úr gæsluvarðhaldi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði nú fyrir stuttu kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir fimm piltum sem allir eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí sl.

Piltarnir, sem eru á aldrinum 17-19 ára, voru handteknir í síðustu viku og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. maí. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í dag fram á að gæsluvarðhaldið yrði framlengt um mánuð en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu.

Friðrik Smári Björgvinsson, yf­ir­maður rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu höfuðborg­ar­svæðis­ins, staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að rannsókn málsins sé langt komin og miði vel.

Piltarnir losnuðu úr haldi klukkan 16 í dag, en ákvörðun héraðsdóms hefur verið kærð til Hæstaréttar.

Vísað til almannahagsmuna

Upphaflega gæsluvarðhaldskrafan byggði á því að rannsóknin væri skammt á veg komin og raunveruleg hætta væri á því að piltarnir hefðu áhrif á vitni eða aðra sakborninga í málinu, gengju þeir lausir. Krafan um áframhaldandi gæsluvarðhald er hinsvegar sett fram á grundvelli almannahagsmuna, að sögn Friðriks Smára.

Piltarnir hafa all­ir geng­ist við því að hafa haft sam­far­ir við stúlk­una, en segj­ast hafa talið að hún væri því samþykk. Pilt­un­um ber þó ekki sam­an um at­b­urðinn og at­b­urðarás hon­um tengda, að því er fram kem­ur í úr­sk­urði Héraðsdóms um fyrri gæsluvarðhaldskröfu.

Mynd­bands­upp­taka, sem tek­in var á síma eins pilt­anna fimm sem eru kærðir, styður framb­urð stúlkunnar, að mati lögreglu. Stúlk­an, sem er 16 ára, lagði sjálf mynd­bands­upp­tök­una fram þegar hún kærði hópnauðgun­ina, sem mun hafa átt sér stað aðfaranótt sunnu­dags­ins 4. maí.

Í greinargerð lögreglu seg­ir jafn­framt að rök­studd­ur grun­ur sé um að fimm­menn­ing­arn­ir hafi þvingað stúlk­una til þess að þola það að þeir hefðu all­ir við hana sam­far­ir í svefn­her­bergi í íbúðinni. Ekki þykir vafi á því að þeir hafi verið „all­ir á sama tíma í svefn­her­berg­inu og hjálp­ast að við að færa stúlk­una úr föt­un­um á meðan þeir höfðu við hana sam­far­ir“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka