„Ég hef fyrir löngu greitt þessa skatta og þá refsingu sem skattayfirvöld bættu við í formi skattálags. Ég tel því að með dóminum sé verið sé að refsa mér í annað sinn fyrir sama brotið,“ segir Bjarni Ármannsson en hann hlaut í dag átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í málinu og þyngdi refsingu þá sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp. Brotið var ekki virt Bjarna til ásetnings og fram kom við meðferð málsins að Bjarni greiddi að fullu opinber gjöld, samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, auk álags.
Bjarni segir málið aðallega hafa snúist um málsmeðferð og tvöfalda refsingu. Fyrir héraðsdómi sagði verjandi Bjarna að verulegur vafi ríki um refsiheimildina í máli og óskaði eftir því að málinu yrði frestað þar til dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem reynir á sama ágreiningsefni, lægi fyrir. „Ég mun að sjálfsögðu una niðurstöðu Hæstaréttar en áskil mér rétt til viðbragða þegar niðurstaða Mannréttindadómstólsins liggur fyrir í framangreindu máli,” sagði Bjarni þegar dómur Hæstaréttar lá fyrir.
Umrætt mál sem rekið er fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu er var höfðað af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og er byggt á Ne bis in idem-reglunni. Sú regla hefur var grunnþátturinn í vörn Bjarna og snýr hún að því að einstaklingum verði ekki gerð tvöföld refsing fyrir sama brot.
Frétt mbl.is: Hæstiréttur þyngdi refsingu Bjarna
Frétt mbl.is: Bjarni dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi