Sjúkraliðar leggja niður vinnu

Mynd er úr safni
Mynd er úr safni

Staðan á hjúkrunarheimilum er heldur verri í dag en á mánudag þegar sjúkraliðar lögðu niður vinnu í átta klukkustundir, að sögn Gísla Páls Pálssonar,  for­stjóra hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins Mörk og formanns Sam­taka fyr­ir­tækja í vel­ferðarþjón­ustu. Hann segir ekkert þokast í viðræðum deilenda.

Enginn samningafundur hefur verið boðaður í deilunni, að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands. Verkfallsverðir á vegum félagsins fylgjast með á þeim stofnunum sem sjúkraliðar hafa lagt niður störf til þess að gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra. 

Það eru um 300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands sem verkfallið nær til ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR. 

Eng­in lausn náðist í kjara­deilu Sjúkra­liðafé­lags Íslands og SFR við Sam­tök fyr­ir­tækja í vel­ferðarþjón­ustu í gær og stendur því verkfall yfir milli 8 og 16 í dag. Ef ekki verður búið að semja hafa sjúkraliðar boðað sólarhringsverkfall þann 19. maí og allsherjarverkfall þann 22. maí verði enn ósamið.

Gísli Páll segir að einhverjar undanþágur hafi fengist á hjúkrunarheimilum en ófaglærðir starfsmenn eru við störf. Jafnframt eru ættingjar að aðstoða en ekki sé gengið í störf sjúkraliða. 

Krist­ín sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að samn­inga­nefnd þeirra hafi lagt fram hug­mynd, sem virt­ist koma til greina að skoða, en eft­ir stutta stund hafi hin samn­inga­nefnd­in komið aft­ur og ýtt henni út að borðinu með þeim orðum að baklandið vildi ekki ræða á þess­um nót­um.

Áhersl­ur sjúkra­liða eru sem fyrr að þeirra fólk hafi sam­bæri­leg kjör og rík­is­starfs­menn, að sögn Krist­ín­ar. Þau fyr­ir­tæki og stofn­an­ir sem verk­fallið á morg­un nær til eru:

Ás Hvera­gerði, Dal­bær, Eir, Grund, Hlévang­ur, HNLFÍ, Horn­brekka, Hrafn­ista Reykja­vík, Hrafn­ista Hafn­ar­f­irði, Hrafn­ista í Kópa­vogi, Hrafn­ista Reykja­nesi, Kumb­ara­vog­ur, Lund­ur, Mörk, SÁÁ, Sjálfs­bjarg­ar­heim­ilið, Skjól, Skóg­ar­bær, Sól­tún og Sunnu­hlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert