Staðan á hjúkrunarheimilum er heldur verri í dag en á mánudag þegar sjúkraliðar lögðu niður vinnu í átta klukkustundir, að sögn Gísla Páls Pálssonar, forstjóra hjúkrunarheimilisins Mörk og formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Hann segir ekkert þokast í viðræðum deilenda.
Enginn samningafundur hefur verið boðaður í deilunni, að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands. Verkfallsverðir á vegum félagsins fylgjast með á þeim stofnunum sem sjúkraliðar hafa lagt niður störf til þess að gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra.
Það eru um 300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands sem verkfallið nær til ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR.
Engin lausn náðist í kjaradeilu Sjúkraliðafélags Íslands og SFR við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu í gær og stendur því verkfall yfir milli 8 og 16 í dag. Ef ekki verður búið að semja hafa sjúkraliðar boðað sólarhringsverkfall þann 19. maí og allsherjarverkfall þann 22. maí verði enn ósamið.
Gísli Páll segir að einhverjar undanþágur hafi fengist á hjúkrunarheimilum en ófaglærðir starfsmenn eru við störf. Jafnframt eru ættingjar að aðstoða en ekki sé gengið í störf sjúkraliða.
Kristín sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að samninganefnd þeirra hafi lagt fram hugmynd, sem virtist koma til greina að skoða, en eftir stutta stund hafi hin samninganefndin komið aftur og ýtt henni út að borðinu með þeim orðum að baklandið vildi ekki ræða á þessum nótum.
Áherslur sjúkraliða eru sem fyrr að þeirra fólk hafi sambærileg kjör og ríkisstarfsmenn, að sögn Kristínar. Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið á morgun nær til eru:
Ás Hveragerði, Dalbær, Eir, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista í Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð.