„Við erum að berjast fyrir afskaplega litlu“

Frá verkfallsmiðstöð sjúkraliða fyrr í vikunni.
Frá verkfallsmiðstöð sjúkraliða fyrr í vikunni. Þórður Arnar Þórðarson

„Okkur finnst þetta nokkuð skrýtið. Í dag er föstudagur og við höfum boðað sólarhringsverkfall á mánudag. Samt er enginn búinn að hafa samband við okkur til að funda. Ég trúi því eiginlega ekki að viljinn til að semja sé ekki meiri en þetta.“ segir Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdarstjóri SLFÍ. Enginn samningafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu sjúkraliða, en síðasti fundur var á miðvikudaginn. 

Ef ekki næst að semja hefst allsherjarverkfall sjúkraliða 22. maí næstkomandi.

Aðspurður segir Gunnar Örn að félagið vinni nú að því að skipuleggja verkfallsvörslu sem fer fram á mánudaginn á meðan sólarhringsverkfallinu stendur yfir. Þá fylgjast verk­falls­verðir á veg­um fé­lags­ins með á þeim stofn­un­um sem sjúkra­liðar hafa lagt niður störf til þess að gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra. „Þetta hefur gengið vel að mestu leyti, það hafa þó komið upp einstaka mál sem eru á gráu svæði. Á sumrin koma yfirleitt inn skólakrakkar á hjúkrunarheimilin í afleysingar. Núna viljum við stefna að því að krakkarnir komi ekkert inn fyrr en búið er að leysa þessa deilu,“ segir Gunnar Örn og bætir við að yfirleitt sé vel tekið í þá hugmynd. „Ég á ekki von á öðru en að skilningur á þessu haldi áfram. Við erum að berjast fyrir afskaplega litlu.“

Samkvæmt Gunnari Erni voru nokkrir sem störfuðu í verkfallsvörslunni á því að mönnun hjúkrunarheimilanna væri of góð og að undanþágur vegna verkfallsins of margar. „Líklegt er að undanþágurnar verði skoðaðar og farið yfir þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert