Minnisblað innanríkisráðuneytisins um málefni hælisleitanda var hvorki unnið með vitund né að ósk ráðherra eða skrifstofu ráðherra. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Valgerðar Bjarnadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
Í svari ráðherra segir að í raun sé þetta ekki minnisblað heldur samantekt. „Slíkar samantektir um feril mála eru alvanalegar í stjórnsýslunni og sú samantekt sem í umræðunni hefur verið er í engu frábrugðin þessari almennu vinnureglu. Umrædd samantekt var unnin upp úr upplýsingum sem þegar er að finna hjá undirstofnunum ráðuneytisins og öðrum aðilum sem hafa með málefni hælisleitenda að gera og fól í sér hefðbundna lýsingu á staðreyndum máls, röð afgreiðslna undirstofnana ráðuneytisins og rök lögmanna. Engin meiðandi ummæli voru í umræddri samantekt.“
Þá segir að sérstök skoðun ráðuneytisins og rekstrarfélags Stjórnarráðsins, sem hefur umsjón með tölvukerfi ráðuneytisins, hafi ekki gefið tilefni til að ætla að trúnaðargögn hafi verið send óviðkomandi aðilum frá ráðuneytinu. „Athugað var hvort upplýsingar hefðu verið sendar úr málaskrá ráðuneytisins eða með tölvupósti til óviðkomandi aðila. Hefur rekstrarfélagið staðfest að svo var ekki.“
Að lokum segir að málið sé til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og meðan á rannsókn málsins stendur geti hvorki ráðherra né aðrir starfsmenn ráðuneytisins tjáð sig frekar um það efnislega. „Þegar rannsókn málsins lýkur mun þessari fyrirspurn verða svarað með ítarlegri hætti.“
Fyrirspurn Valgerðar og svar ráðherra