Framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko og vörustjóri timburdeildar Húsasmiðjunnar hvöttu hvor annan til að stuðla að því að Byko og Húsamiðjan myndu ekki stunda samkeppni. Í ákæru sérstaks saksóknara á hendur þrettán starfsmönnum þriggja byggingavöruverslana er birt brot úr símtali þeirra frá því í febrúar 2011.
Ákæran er á hendur þrettán starfsmönnum Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins byggingavöruverslunar vegna samkeppnisbrota á árunum 2010 og 2011. Sakarefnið er aðallega verðsamráðsbrot og tilraunir til verðsamráðsbrota, einkum við verðupplýsingagjöf á grófvörum, þ.e. bygginga- og timburvörum.
Samkvæmt ákæru var einkum um að ræða upplýsingagjöf símleiðis af hálfu starfsmanna Húsasmiðjunnar og Úlfsins til starfsmanna Byko, en þegar á leið, frá lokum janúar 2011, varð sú upplýsingagjöf gagnkvæm.
Verðupplýsingarnar voru hagnýttar innan fyrirtækjanna og urðu grundvöllur að einstökum verðbreytingum á grófvörum. „Á þetta einkum við um framkvæmd innan Byko,“ segir í ákæru.
Meðal annars eru þáverandi framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko og vörustjóri timburdeildar Húsasmiðjunnar ákærðir fyrir verðsamráð og hvatningu til verðsamráðs, sem hafði það að markmiði að koma í veg fyrir samkeppni milli Byko og Húsasmiðjunnar. Átti þannig að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör fyrirtækjanna við tilboðsgerð á grófvörum almennt.
Í ákæru sérstaks saksóknara er birt brot úr símtali milli þeirra frá 28. febrúar 2011 þar sem rætt var um tilboðsmál fyrirtækjanna. Í símtalinu var meðal annars upplýst um hvernig menn myndu haga tilboðsgerð.
„Þetta eru orðin hjaðningavíg ef þetta heldur svona áfram,“ sagði framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko og vörustjóri timburdeildar Húsasmiðjunnar tók undir. Framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko sagði þá: „Frá og með bara sko morgundeginum. Þá mun ég ýta öllu upp. Alveg sama hvað það er og það verður. Ég mun handstýra allri tilboðsgerð núna í heilan mánuð þangað til að, af því sko ...“.
Einnig sagðist framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ætla að viðhafa ákveðna hegðun á markaði þegar kæmi að Akureyri og Selfossi. „Það sem ég ætla með Akureyri sérstaklega og líka Selfoss, það er að ég ætla mér að draga þetta upp meira þar í tilboðsgerðinni og þeir verða bara undir þeim skipunum og ef þeir ekki hlýða mér og ef ég fæ ekki tilboðin og þeir klára þetta ekki eins og ég vil, þá hérna, fá menn hérna, skriflega áminningu og síðan geta þeir bara kysst starfið sitt bless.“
Í ákærunni segir að í kjölfar samtalsins hafi vörustjóri timburdeildar Húsasmiðjunnar upplýst samstarfsmenn sína um símtalið og að Byko ætlaði sér að hækka framlegð á Akureyri og Selfossi og minnka afslætti um tvisvar sinnum 2%.
Sjá einnig:
Húsleit hjá BYKO og Húsasmiðju
Öllum sleppt eftir yfirheyrslu
Húsasmiðjan kynnir sér efni ákæra
Hér að neðan má nálgast ákæruna í heild sinni.