Fjármálastöðugleikaráð verður formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Það varð ljóst þegar Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð. Markmið þess verður að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu, auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og sporna við uppsöfnun kerfisáhættu.
Nefnd um fjármálastöðugleika hefur verið vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og tillögugerðar vegna fjármálastöðugleika og samhæfingar viðbúnaðar við hugsanlegu fjármálaáfalli. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Ekki er fjallað um nefndina í lögum, en hún hefur starfað á grundvelli samkomulags ráðuneyta og stofnana frá 2. apríl 2012 sem leysti af hólmi fyrra samkomulag frá 6. júlí 2010. Fyrir þann tíma höfðu ráðuneyti og stofnanir átt samráð um fjármálastöðugleika og viðbúnað á grundvelli samkomulags frá árinu 2006.
Á fundum sínum fjallar nefnd um fjármálastöðugleika um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum, samráð og aðgerðir stjórnvalda vegna hugsanlegra áfalla á fjármálamörkuðum, meiri háttar breytingar á lögum, reglum og starfsháttum er varða verksvið nefndarinnar, þróun og breytingar í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega innan EES, og önnur mál sem vísað er til hennar af þeim sem að henni standa, enda megi ætla að þau kunni að hafa áhrif á fjármálastöðugleika.
Í frumvarpinu um fjármálastöðugleikaráðið var lagt til að settur verði á stofn formlegur vettvangur stjórnvalda sem hafa á yfirsýn yfir stöðu og þróun fjármálamarkaðar og þeim vettvangi skapaður formlegur lagalegur grunnur.
Gerð var tillaga um stofnun annars vegar fjármálastöðugleikaráðs þar sem sitja æðstu embættismenn þeirra stofnana sem hafa með höndum eindaeftirlit, þ.e. Fjármálaeftirlitsins, þeirra sem eiga að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu þjóðarbúsins, þ.e. Seðlabanka Íslands, og þess sem hefur forustu um rekstur ríkisins, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra, og hins vegar sérfræðinganefndar, sem kölluð er kerfisáhættunefnd í frumvarpinu, sem undirbýr umfjöllun fjármálastöðugleikaráðs.
Í umsögn um frumvarpið kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneyti muni forgangsraða sínum fjárheimildum með þeim hætti að starf að þessu verkefni rúmist innan fjárlagaramma þess þannig að lögfesting frumvarpsins ætti ekki að þurfa að leiða til teljandi útgjalda umfram það sem fjárheimildir gildandi fjárlaga gera ráð fyrir.