Sólarhringsverkfall hefst á miðnætti hjá sjúkraliðum, náist ekki kjarasamningar í dag. Nokkur kvíði er hjá sjúkrastofnunum vegna þessa, að sögn Kristínar Guðmundsdóttur, formanns Félags sjúkraliða.
Þetta verður þriðja verkstöðvun sjúkraliða í kjaradeilunni og sú lengsta, en hinar tvær hafa staðið í eina vakt eða 8 klukkustundir. Því er fyrirséð að talsvert meira álag verði af þeim aðgerðum sem framundan eru í nótt og á morgun. Á miðvikudag hefst svo allsherjarverkfall sjúkraliða, semjist ekki.
„Það er allt kapp lagt á að hægt verði að afstýra verkfalli á morgun, eðlilega, en það er talsverð vinna eftir,“ segir Kristín. Fundað var frá morgni og fram á kvöld í gær og samninganefndirnar koma aftur saman hjá ríkissáttasemjara nú klukkan 10.
Að sögn Kristínar eru kjaramálin tvíþætt og hefur aðeins þokast í umræðu um réttindi sjúkraliða, en aftur á móti eigi algjörlega eftir að fara yfir kröfu sjúkraliða um hækkun launaliða.
Hún býst fastlega við því að fundað verði í allan dag, nema eitthvað komi upp.