Sólarhringsverkfall hefst á miðnætti hjá sjúkraliðum sem starfa á hjúkrunarheimilum en samningafundi var slitið um sexleytið í kvöld. Ef ekki tekst að semja hefst allsherjarverkfall sjúkraliða á fimmtudag. Næsti fundur hefur verið boðaður síðdegis á morgun.
Að sögn Gísla Páls Pálssonar, forstjóra hjúkrunarheimilisins Markar og formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, mun þetta hafa mikil áhrif á starfsemi hjúkrunarheimilanna en reynt verði að bregðast við eins og gert var þá tvo daga sem sjúkraliðar lögðu niður störf í átta klukkustundir. Einhverjar undanþágur hafi fengist og eins hafi verið leitað til aðstandenda íbúa á heimilunum.
Fólk fær lyfin sín og að borða en ekki mikið meira, segir Gísli Páll og bætir við að mjög lítil þjónusta verði veitt, til að mynda sé ekki hægt að baða fólk og fleira. Hann kvíðir því ef til ótímabundins verkfalls kemur á fimmtudags. Allt verði gert til þess að reyna að ná samkomulagi fyrir fimmtudag.
Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða, segir að það sé ekki hlutverk sjúkraliða á stofnunum að taka á sig fjárhagserfiðleika stofnana með því að vinna á lægri launum en sjúkraliðar sem starfa hjá ríkinu. Staðan hjá sumum stofnunum sé svo alvarleg að það jaðri við að það þurfi að loka þeim. „Ég dreg það ekki í efa að staðan sé háalvarleg en það er ekki starfsfólksins að redda því,“ segir hún og bendir á að það muni einum og tveimur launaflokkum á kjörum sjúkraliða á þessum stofnunum og þeirra sem starfa hjá ríkinu.
300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands leggja niður störf ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR. Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið á miðnætti nær til eru: Ás Hveragerði, Dalbær, Eir, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista í Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð.
Að sögn Kristínar er ekki um háar launakröfur að ræða og staðan mjög sérstök. „Um helgina hefur verið reynt að skýra stöðuna varðandi réttindapakka starfsmanna. Það er að það hafi sama starfsöryggi og aðrir sem starfa hjá ríki, sveitarfélögum eins og Reykjavíkurborg og fleiri aðilum. Við teljum að þetta fólk þurfi að vera með sömu starfsréttindi og vera með atvinnuöryggi ef það ætlar að vinna við þetta. En það bara kemur ekki til greina að semja um að þetta fólk sé á lægri launum,“ segir Kristín og bætir við að þetta hafi heldur skýrst um helgina en ekki meira en það.