Fundi í kjaradeilu Félags sjúkraliða og starfsmanna SFR var slitið nú fyrir skömmu, en fundurinn hófst síðdegis í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Að sögn Kristínar A. Guðmundsdóttur, formanns Félags sjúkraliða, verður ekki fundað á nýjan leik fyrr en eftir hádegi á morgun.
Í samtali við mbl.is segir hún að lítið hafi verið að frétta af fundinum í dag. Deilendur hafi einungis verið að fara yfir þá stöðu sem er komin upp.
300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands og 150 starfsmenn SFR lögðu niður störf á miðnætti. Vinnustöðvunin stendur yfir í einn sólarhring. Hafi ekki verið samið á miðnætti á miðvikudag kemur til allsherjarverkfalls.
Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið nær til eru: Ás Hveragerði, Dalbær, Eir, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista í Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð.