Sjúklingar hugsanlega sendir heim

Heiðar Kristjánsson

Hætt er við því að sjúklingar verði sendir heim af meðferðarheimilum SÁÁ að Staðarfelli og í Vík dragist yfirvofandi allsherjarverkfall sjúkraliða og starfsmanna SFR á langinn. Göngudeildir SÁÁ eru lokaðar í dag, mánudag, vegna sólarhringslangrar vinnustöðvunar.

300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands og 150 starfsmenn hjá SFR lögðu niður störf á miðnætti. Vinnustöðvunin stendur yfir í einn sólarhring. Hafi ekki verið samið á miðnætti á miðvikudag kemur til allsherjarverkfalls. 

Aðeins einn ráðgjafi í heilan sólarhring

Á heimasíðu SÁÁ kemur fram að göngudeildirnar tvær, í Reykjavík og á Akureyri, verði lokaðar í dag. Undanþágur fengust til að halda sjúkrahúsinu Vogi og meðferðarheimilunum Vík og Staðarfelli opnum með lágmarksmannafla. Að óbreyttu mun starfsemi á Vogi, Staðarfelli og Vík stöðvast ef til allsherjarverkfalls kemur.

Að sögn Þórarins Tyrfingssonar, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs SÁÁ, verður aðeins einn ráðgjafi að störfum til miðnættis í kvöld í Vík og annar á Staðarfelli og mun vakt þeirra því standa yfir í heilan sólarhring.

„Margir koma inn á göngudeildirnar á mánudegi og því er slæmt að þær séu lokaðar.Ef til allsherjarverkfalls kemur, gerum við ráð fyrir að opna fyrir þessa þjónustu af hálfu lækna og fleiri,“ segir Þórarinn. Sjö ráðgjafar starfa á göngudeildinni í Reykjavík og einn á Akureyri.

Þórarinn segir óvissu ríkja vegna yfirvofandi allsherjarverkfalls og telur hann stöðu mála vera á gráu svæði. „Sjúklinganna vegna verðum við að vita með fyrirvara hvernig þetta verður framkvæmt,“ segir hann.

Vilja fá þjónustu sem greitt er fyrir

Ekki verður hægt að halda Vík og Staðarfelli opnum með einum ráðgjafa ef til allsherjarverkfalls kemur. „Sjúklingar greiða hluta af vistgjaldi, fyrir fæði og húsnæði. Þeir koma í meðferð og búast við ákveðinni þjónustu. Þessa þjónustu fá þeir ekki ef það er aðeins einn ráðgjafi,“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir að ef til allsherjarverkfalls komi, verði meðferðarheimilin tvö, rekin fram yfir næstu helgi. Að öllu óbreyttu verður þeim lokað eftir næstu helgi, verði ósamið í deilunni og sjúklingar sendir heim. „Það stefnir í lokun á þessum stöðum ef verkfallsaðgerðir verða með jafn harkalegum hætti og verið hefur,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is. 

300 sjúkra­liðar í Sjúkra­liðafé­lagi Íslands leggja niður störf ásamt um 150 starfs­mönn­um hjá SFR. Þau fyr­ir­tæki og stofn­an­ir sem verk­fallið á miðnætti nær til eru: Ás Hvera­gerði, Dal­bær, Eir, Grund, Hlévang­ur, HNLFÍ, Horn­brekka, Hrafn­ista Reykja­vík, Hrafn­ista Hafn­ar­f­irði, Hrafn­ista í Kópa­vogi, Hrafn­ista Reykja­nesi, Kumb­ara­vog­ur, Lund­ur, Mörk, SÁÁ, Sjálfs­bjarg­ar­heim­ilið, Skjól, Skóg­ar­bær, Sól­tún og Sunnu­hlíð.

Staðarfell í Búðardal.
Staðarfell í Búðardal. Af vef SÁÁ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert