Kjaradeila Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Icelandair stendur enn óleyst en næsti samningafundur í deilunni fer fram eftir hádegi á morgun í húsi ríkissáttasemjara. „Við þurfum að semja, það liggur fyrir. Það er best fyrir alla,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA, í samtali við mbl.is.
Síðasti formlegi samningafundur í deilunni var haldinn 14. maí sl. Engar óformlegar þreifingar hafa átt sér stað í millitíðinni að sögn Hafsteins. „Það er bara beðið eftir þessum fundi á morgun.“
Hinn 15. maí sl. samþykkti Alþingi frumvarp innanríkisráðherra um frestun verkfallsaðgerða flugmanna hjá Icelandair og það lagðist illa í félagsmenn FÍA.
„Menn eru mjög reiðir. Mönnum finnst freklega að sér vegið með því að samningsrétturinn sé tekinn af stéttarfélaginu í raun og veru. Þó að menn hafi þennan tíma til 1. júní þá vilja allir fá að gera frjálsa samninga. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir launþega,“ segir Hafsteinn varðandi stöðu mála.
Á síðasta samningafundi lagði ríkissáttasemjari fram sáttatillögu í deilunni sem samninganefnd FÍA hafnaði. Aðspurður hvers vegna tillögunni var hafnað segir Hafsteinn að hún hafi ekki gengið nógu langt. Hann bætir því við að hann megi ekki tjá sig um efni tillögunnar í fjölmiðlum.
„Það bar nóg í milli til þess að ekki væri hægt að semja.“
Aðspurður segir hann sjálfsagt að skoða allar tillögur sem séu lagðar fram og það sé engin ástæða til að slá á útrétta sáttahönd.
Líkt og fram hefur komið hefur Icelandair aflýst mörgum ferðum undanfarna daga vegna þess að flugmenn hafi ekki fengist til að vinna yfirvinnu.
Spurður hvort Icelandair hafi tök á því að ráða erlendar áhafnir til starfa til að fylla í skarð flugmanna FÍA segir Hafsteinn: „Nei, þeir geta það ekki. Samningurinn við okkur kveður á um það að þeir mega það ekki.“
Spurður nánar segir hann: „Við höfum forgang á allri vinnu fyrir Icelandair Group. Þannig ef það yrði [erlendar áhafnir ráðnar til starfa] þá yrði það stoppað af,“ segir Hafsteinn og bætir við að slíkt væri brot á kjarasamningum við FÍA.
Hann bætir því við að FÍA njóti stuðnings Alþjóða-flutningaverkamannasambandsins (ITF) og Norræna flutningaverkamannasambandsins (NTF) og að starfsmenn ITF og NTF myndu neita að afgreiða vélar Icelandair ef svo bæri undir.
„Ég neita að trúa því að þetta fari á þann stað. Fyrr hljóta menn nú bara að semja – klára þetta og standa saman í því að klára sumarið.“