„Við fórum að hugsa hvernig best væri að markaðssetja safnið. Þá datt okkur í hug að fá einhvern til að kynna safnið í bænum í geimfarabúningi. Við gerðum sérstaka auglýsingu um starfið og heimasíðu. Þetta er búið að vekja mikla athygli og nú þegar hafa komið inn nokkrar umsóknir,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, stofnandi og safnstjóri The Exploration Museum sem verður opnað á Húsavík núna um helgina.
„Þetta byrjaði þannig að ég vildi opna safn sem fjallaði um æfingar amerísku tunglfaranna á Íslandi. Á safninu sem verður opnað núna um helgina, The Exploration Museum, verða þær í aðalhlutverki en einnig verður fjallað um kapphlaupið á pólana og landkönnun víkinga,“ segir Örlygur og bætir við að safnið leitist eftir að skoða hlutverk Íslands í könnunarsögunni.
Örlygur byrjaði að vinna að þessari hugmynd árið 2009 en setti upp sýningu árið 2011 sem vakti mikla athgyli. „Þá setti ég upp sýningu með því sem ég var kominn með og það vakti mikla lukku. Ég hef verið að leita af húsi fyrir safn hér á Húsavík og nú er það fundið.“ segir Örlygur en safnið er á Héðinsbraut 3 þar sem áður var Hið íslenzka reðasafn.
Það kennir margra grasa á safninu en meðal annars verður úlpa Vilborgar Örnu Gissurardóttur frá því að hún fór á suðurpólinn til sýnis. „Einnig verðum við með forláta tunglstein sem var gefinn íslenska ríkinu.
Að sögn Örlygs er ekki sérstaklega leitað eftir Húsvíkingi í starfið. „Þetta er opið fyrir öllum sem vilja prófa eitthvað nýtt. Ef þetta gengur vel er hugsanlegt að við munum síðan auglýsa eftir víkingi eða pólfara til þess að sinna svipuðu starfi. Við vonumst til að geta skreytt bæinn og lífgað upp á umhverfið með þessu.“
Hér má sjá auglýsinguna og fræðast um starfið og hér að neðan má sjá kynningarmyndband.