Ekki bjartsýn á að samningar náist

Allsherjarverkfall sjúkraliða hefst að öllu óbreyttu á fimmtudag.
Allsherjarverkfall sjúkraliða hefst að öllu óbreyttu á fimmtudag. mbl.is/Golli

„Ég held að það sé alltaf að koma betur í ljós að þessar stofnanir ætla að halda starfsmönnum sínum í verkfalli til þess að knýja ríkið á um endurskoðun þjónustusamninga,“ segir Kristín Á Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða.

Kristín segist ekki bjartsýn á að samningar náist fyrir fimmtudag en þá hefst allsherjarverkfall sjúkraliða að öllu óbreyttu. Um 500 fé­lags­menn fé­lag­anna tveggja leggja þá niður störf.

Fundur var í kjara­deilu Fé­lags sjúkra­liða og starfs­manna SFR í gær en Kristín segir að fundurinn hafi verið notaður til þess að fara yfir þá stöðu sem upp er komin og að lítið nýtt hafi komið fram. Næsti fundur verður klukkan 13 hjá Ríkissáttasemjara.

Hún segir að skriður sé þó kominn á viðræður um réttindamál og lögfræðingar beggja aðila séu nú að fara yfir drög að kafla um réttindi og skyldur sjúkraliða sem stendur til að færa inn í kjarasamninginn. Er sá texti unninn upp úr upp úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Undanþágunefnd fer nú yfir umsóknir um undanþágur frá verkfallinu en Kristín segir að mun fleiri slíkar umsóknir berist en unnt verður að samþykkja. „Það þarf í raun og veru að stefna í voða til þess að umsókn verði samþykkt,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert