Lögreglu hafa borist ábendingar varðandi rannsókn á því hvort ungri konu hafi verið nauðgað í Reykjavík aðfaranótt laugardags. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar, hafa þessar ábendingar varpað skýrara ljósi á atvik.
Einn var handtekinn í tengslum við rannsóknina um helgina og yfirheyrður í tengslum við málið en síðan sleppt að loknum yfirheyrslum að sögn Friðriks Smára en maðurinn er ekki talinn tengjast málinu á neinn hátt.
Friðrik Smári segir að rannsóknin sé í fullum gangi og lítið hægt að segja um hana að svo stöddu.
Ung kona leitaði á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 5 á laugardagsmorgun, en grunur leikur á að henni hafi verið nauðgað. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti síðdegis á laugardag eftir vitnum í tengslum við rannsóknina.
Að sögn lögreglu fór konan, sem er um tvítugt, á skemmtistaðina B5 og English Pub í miðborg Reykjavíkur en síðan er ekki vitað um ferðir hennar fyrr en hún bankaði upp á og leitaði aðstoðar í heimahúsi við Langholtsveg. Þaðan var henni ekið á neyðarmóttöku.
Talið er að konan hafi knúið dyra á nokkrum stöðum á Hólsvegi og Langholtsvegi áður en eftir henni var tekið. Hún kom að sögn lögreglu að Hólsvegi frá Hjallavegi, og gekk síðan áfram Langholtsveg.
Lögregla biðlar til almennings við rannsókn málsins, og leitar upplýsinga um ferðir konunnar í nótt og annað sem kann að varpa ljósi á málið.
Konan, sem er með dökkt axlrsítt hár og beinan topp, var klædd í dökkar buxur, hvítan jakka, bleik/appelsínugulan topp og var í dökkum skóm með pinnahælum. Hún var með stórt hálsmen (gylltir hlekkir). Konan er í meðallagi há.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögreglu. Upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á facebooksíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í síma 444-1000.