Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir fimm piltum sem allir eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí sl.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir að þessi niðurstaða Hæstaréttar hafi ekki bein áhrif á rannsóknina þar sem óskað hafi verið eftir því að þeir sættu gæsluvarðhaldi áfram með hagsmuni almennings í huga, ekki rannsóknarhagsmuni.
Rannsókn gengur vel og er langt komin, segir Friðrik Smári og segir hann rannsóknarhagsmuni ekki í hættu þó svo að piltarnir fimm gangi lausir.
Piltarnir, sem eru á aldrinum 17–19 ára, sátu í gæsluvarðhaldi í viku en var sleppt 15. maí.
Upphaflega gæsluvarðhaldskrafan byggði á því að rannsóknin væri skammt á veg komin og raunveruleg hætta væri á því að piltarnir hefðu áhrif á vitni eða aðra sakborninga í málinu, gengju þeir lausir.
Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda, að því er fram kemur í úrskurði Héraðsdóms um fyrri gæsluvarðhaldskröfu.
Myndbandsupptaka, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð stúlkunnar, að mati lögreglu. Stúlkan, sem er 16 ára, lagði sjálf myndbandsupptökuna fram þegar hún kærði hópnauðgunina, sem mun hafa átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí.
Í greinargerð lögreglu segir jafnframt að rökstuddur grunur sé um að fimmmenningarnir hafi þvingað stúlkuna til þess að þola það að þeir hefðu allir við hana samfarir í svefnherbergi í íbúðinni. Ekki þykir vafi á því að þeir hafi verið „allir á sama tíma í svefnherberginu og hjálpast að við að færa stúlkuna úr fötunum á meðan þeir höfðu við hana samfarir“.