Ein þeirra kvenna sem kærðu Gunnar Þorsteinsson, kenndan við Krossinn, fyrir kynferðisbrot lýsti því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að hann hefði fyrst brotið gegn sér þegar hún var þrettán ára og aftur þegar hún var 21 árs og nýbúin að eignast sína þriðju dóttur.
Eins og komið hefur fram á mbl.is höfðaði Gunnar meiðyrðamál á hendur tveimur konum, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar og útgáfufélagi Pressunnar vegna fréttaflutnings af konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot. Áður hefur verið greint frá skýrslu sem tekin var af Gunnari í morgun og einnig af annarri talskonu kvennanna.
Sólveig Guðnadóttir er ein þeirra kvenna sem kærðu Gunnar fyrir kynferðisofbeldi, en hún var mágkona Gunnars. Hún sagði allt rétt sem komið hafi fram í umfjöllun Pressunnar og lýsti því að snemma árs 1978, þegar Sólveig var 13 ára, hefði Gunnar káfað á henni. Þegar Sólveig var 21 árs og nýbúin að eignast sína þriðju dóttur hafi Gunnar komið í heimsókn. „Hann vildi fá að sjá brjóstin á mér og sagðist vilja smakka á mjólkinni og spurði hvort hún sé ekki sæt.“ Hún segist hafa orðið smeyk.
Þá sagði hún brot Gunnars hafa eyðilagt líf sitt. Hún hafi frá þessu verið með skakka mynd á lífið og hrikalega skömm. „Þetta hefur skemmt út frá sér allt lífið.“
Sólveig sagðist aldrei hafa ætlað að fara með mál sitt í fjölmiðla frekar en aðrar í umræddum hóp kvenna sem kærðu Gunnar. Það hafi hins vegar verið Jónína Benediktsdóttir, eiginkona Gunnars, sem fyrst hafi farið með þetta í blöðin. „Hún ætlaði að nota þennan fjölskylduharmleik til að selja bókina sína,“ sagði hún og bætti við að það hefði reitt hana til reiði.
Þá rifjaði hún upp símtal við Gunnar frá nóvember 2010 sem hún skráði niður um leið og því lauk, en þá var málið ekki komið í fjölmiðla. Sólveig hafi þá sagt Gunnari að hún ætlaði ekki með málið í blöðin en hann ætti kannski að passa upp á eiginkonu sína. „Já, hún á það til að vera svolítið bitch,“ sagði Sólveig að Gunnar hefði sagt um eiginkonu sína.
Ennfremur var Sólveig spurð um það hvað hún þekki til margra fórnarlamba Gunnars. „Ég veit persónulega um sextán en það er ábyggilega aðeins toppurinn á ísjakanum.“
Frétt mbl.is: Ein geðveik og önnur súludansmær
Frétt mbl.is: Hræddar vegna áreitis Gunnars
Frétt mbl.is: Rekur málið til hjónabands síns
Frétt mbl.is: Thelma fær að bera vitni
Frétt mbl.is: Thelma fær ekki að bera vitni
Frétt mbl.is: Gunnar vildi fjölmiðlabann
Frétt mbl.is: Gunnar hyggst stefna Pressunni