Írinn Nirbhasa Shane Magee varð í 3. sæti í 10 daga götuhlaupi í New York (The Self-Transcendence 10 days race) fyrir skömmu og fór upp um eitt sæti frá því í keppninni í fyrra. Hann flutti til Reykjavíkur í haust sem leið og æfði sig á götum borgarinnar fyrir keppnina í ár, þar sem hann hljóp 702 mílur eða samtals um 1.130 kílómetra.
„Ég vissi af þessu hlaupi og þegar ég var í New York í viðskiptaerindum 2012 fylgdist ég með keppninni um miðnætti einn daginn, hún kveikti strax í mér og ég ákvað að taka þátt í henni að ári,“ segir Nirbhasa um þátttökuna í hlaupinu. En það er ekki hlaupið að því að hlaupa um og yfir 100 km á um 18 tímum á dag, 10 daga í röð, og sofa ekki meira en um þrjá tíma á sólarhring. Nirbhasa segir að á þessum tíma fyrir um tveimur árum hafi hann aldrei tekið þátt í lengra hlaupi en 50 mílna hlaupi. Til að byrja með hafi hann því hugsað sér að taka þátt í sex daga keppni sem er samfara 10 daga keppninni, byrjar bara fjórum dögum síðar. „Ég byrjaði að æfa mig fyrir keppnina og eftir að hafa tekið þátt í 24 tíma hlaupi í London ákvað ég að setja stefnuna á 10 daga hlaupið, ákaft studdur af fjölda fólks sem sagði að það væri skemmtileg reynsla.“
Nirbhasa hefur stundað hugleiðslu hjá Sri Chinmoy í yfir áratug og var kennt að hugleiðsla og hlaup hentuðu vel saman. „Þá byrjaði ég að hlaupa og komst að því að þetta var satt. Ég byrjaði að taka þátt í maraþoni og eitt leiddi af öðru.“
Nirbhasa vinnur við umönnun á daginn og æfir sig áður en hann fer að sofa seint á kvöldin. Hann hefur hlaupið um margar götur í Reykjavík og finnst skemmtilegast að hlaupa með ströndinni, þar sem hann getur notið útsýnisins í leiðinni. „Þetta er góð aðferð til þess að kynnast borginni,“ segir hann.
Hlauparinn byrjar æfingar frá klukkan 22 til 24 á kvöldin og hleypur í tvo til þrjá tíma daglega. „Ég hleyp lengri vegalengdir um helgar og þegar ég átti 35 ára afmæli í mars hljóp ég 50 mílur, 50 hringi í kringum Tjörnina í Reykjavík. Hver hringur í hlaupinu í New York er ein míla og því var þetta góð andleg æfing fyrir keppnina. Hlaupið tók um 10 tíma en þar sem þetta var afmælisdagurinn minn ákvað ég að njóta hans, tók mér hlé eftir 25 hringi og fékk mér pitsu.“