Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi í dag að fyrirtæki einu væri óheimilt að flytja inn, taka við vörslum, hafa í notkun í starfsemi sinni, bjóða til sölu, selja, gefa, flytja úr landi eða ráðstafa með öðrum hætti húsgögnum sem teljast eftirlíkingar af meðal annars hönnunarfyrirmyndunum Egginu, Svaninum, Corona stólnum, Cassina stól og Arco lampanum.
Þá var staðfest lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 14. janúar síðastliðinn við því að fyrirtækið flytti inn og notaði þessi húsögn. Var það dæmt til að þola að öll eintök af eftirlíkingunum yrðu afhent stefnendum í máli til eyðingar undir eftirliti Tollstjórans.
Þá skal stefndi greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð 26.185 krónum ásamt dráttarvöxtum og 1,5 milljónir króna í málskostnað.
Málavextir eru þeir að um sumarið 2011 komu til landsins tveir gámar sem innihéldu vörur frá Kína. Innflytjandi þeirra var stefndi, Gisting ehf., en vörurnar keypti stefndi í apríl 2011 af fyrirtækinu Co/Co Furniture Trading Limited, sem heldur úti vefsíðunni www.cocofurniture.com.
Á meðal hinna innfluttu húsgagna voru 53 eintök, þar af átta lampar, sem talin voru eftirlíkingar af hönnunarfyrirmyndunum Egginu og Svaninum, stólum hönnuðum af Arne Jacobsen, Corona stólnum hönnuðum af Paul Volther, Cassina stólnum, sófa LC2 og LC3, borðinu LC10 allt hannað af Le Corbusier, Pierre Jeanneret og Charlotte Perriand og Arco lampanum hönnuðum af Achille og Pier Castiglioni.
Tollstjóri tilkynnti lögmanni stefnenda um innflutning stefnda á vörum sem taldar voru brjóta gegn hugverkaréttindum þeirra. Hann tilkynnti síðan fyrirsvarsmanni stefnda um frestun tollafgreiðslu tímabundið.
Af hálfu stefnenda var krafist opinberrar rannsóknar á meintum brotum stefnda gegn höfundalögum og lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tók málið til rannsóknar og ákvað að leggja hald á öll þau húsgögn sem voru í fyrrgreindum gámum.
Lögreglan boðaði forsvarsmann stefna í skýrslutöku en hann gaf þær skýringar að húsgögnin væru eingöngu ætluð til notkunar í leiguíbúð, gistiheimili og smáhýsi stefnda úti á landsbyggðinni og kannaðist ekki við að um eftirlíkingar væri að ræða.
Leitað var sérfræðiálits frá Hönnunarsafni Íslands en þar segir að húsgögnin hafi verið eftirlíkingar eða falsanir.
Í október árið 2012 ákvað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að hætta rannsókn málsins. Taldi hún að kaup og innflutningur stefnda á húsgögnunum gæti hvorki talist brot á ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972 né ákvæðum laga nr. 57/2005. Var málið fellt niður.
Hinn 14. desember 2012 var beiðni um lögbann stefnenda móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík og mánuði síðar lagði sýslumaður lögbann við því að stefndi flytti inn, tæki við vörslum, hefði í notkun í starfsemi sinni (meðal annars með því að láta vera í notkun og til afnota fyrir hótelgesti, aðra viðskiptamenn og aðra), byði til sölu, seldi, gæfi, flytti úr landi eða ráðstafaði með öðrum hætti eftirlíkingum af þeim hönnunarfyrirmyndum sem væru í vörslum Tollstjórans og voru áðan tilgreindar.
Dómurinn féllst á kröfur stefnenda. Fram kom í framburði fyrirsvarsmanns stefna fyrir dómi að hann hefði skoðað bæklinga og „eitthvað lítið“ skoðað heimasíðu fyrirtækisiins, sem bauð húsgögnin til sölu, án þess að hann yrði þess var að þar væru auglýstar eftirlíkingar til sölu.
Dómurinn segir hins vegar að það hefði engu breytt þó hann þekkti ekki til sérhannaðra húsagna og hafði aldrei heyrt alað um þau húsgögn sem hér um ræðir.
Heimasíða fyrirtækisins auglýsti húsgögnin sem eftirlíkingar og notaði nöfn frumgerðanna og því mætti ætla að stefndi hefði mátt vita að um eftirlíkingar væri að ræða. „Hvað sem því líður verður skaðabótaábyrð lögð á stefna samkvæmt þessu ákvæði hafi gáleysi hans verið fyrir að fara eða hann verið í góðri trú. Ber honum því að greiða stefnendum umkrafða fjárhæð vegna kostnaðar við eyðingu húsgagnanna,“ segir í dómnum.