Hjúkrunarfræðingnum sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir manndráp af gáleysi láðist að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók karlmann úr öndunarvél og setti talventil á barkaraufarrennuna. Afleiðingar þess urðu þær að maðurinn gat einungis andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi og hann lést skömmu síðar.
Þetta kemur fram í ákærunni sem birt hefur verið á vefsvæði ríkissaksóknara. Í henni segir að konan hafi verið á kvöldvakt á gjörgæsludeild sem hún hafi unnið í beinu framhaldi af dagvakt miðvikudaginn 3. október 2012. Þá segir að konunni hafi verið vel kunnugt um að henni bar að tæma loftið úr kraganum, líkt og vinnulýsing um notkun talventilsins kvað á um.
„Þegar ákærða kom á umrædda kvöldvakt og tók við umönnun Y framkvæmdi hún ekki öryggiseftirlit á vaktara (monitor) sem mælir súrefnismettun í blóði, en ákærða veitti því ekki athygli að slökkt var á öryggishljóði vaktarans, sem ella hefði gefið til kynna þegar Y fór að falla í súrefnismettun. Nefnt eftirlit var hluti af starfsskyldum ákærðu samkvæmt verklagsreglum spítalans sem ákærða þekkti vel til.
Ákærða fór að aðstoða við umönnun annars sjúklings í samliggjandi sjúkrastofu strax eftir að hún hafði sett Y á talventil og fylgdist ekki með því hvort hann gæti andað frá sér lofti um munn og nef líkt og nauðsynlegt var og vinnulýsing um notkun talventilsins, sem henni bar að kynna sér, mælir fyrir um.
Þá lét ákærða þann hjúkrunarfræðing sem eftir varð á stofunni með Y ekki vita að hún hefði sett hann á talventil. Þessi vanræksla ákærðu stuðlaði enn frekar að því að mannsbani hlaust af gáleysi hennar,“ segir í ákærunni.
Fjórar einkaréttarkröfur eru í málinu, miskabóta og vegna útfararkostnaðar. Þær nema samtals tæplega 14,5 milljónum króna.
Frétt mbl.is: Mikil óvissa eftir útgáfu ákæru