Mikil óvissa eftir útgáfu ákæru

Landspítali.
Landspítali.

Andrúmsloftið á Landspítalanum hefur í dag litast nokkuð af útgáfu ríkissaksóknara á ákæru vegna mistaka heilbrigðisstarfsmanns í starfi. Ótal spurningar hafa í kjölfarið vaknað og velta starfsmenn stöðu sinni og ábyrgð í starfi fyrir sér. Mikilvægt þykir að skýra þá óvissu sem skapast hefur.

Eins og greint var frá á mbl.is hef­ur rík­is­sak­sókn­ari gefið út ákæru á hend­ur Land­spít­al­an­um og starfs­manni á gjör­gæslu­deild hans vegna atviks á ár­inu 2012 sem leiddi til þess að sjúklingur lést. Varð það til þess að Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra dómsmála, kallaði ákvörðun Sigríðar J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, fé­lags­legt og siðferðilegt glapræði.

„Þessar aðstæður sem upp eru komnar skapa mikla óvissu í heilbrigðiskerfinu. Starfsfólkið okkar veit ekki almennilega hvar það er statt og það vakna upp ótal spurningar,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. „Ég get fullyrt að það er mikil óvissa og fólk hefur margar spurningar um stöðu sína, hversu langt ábyrgð þess nær og hvernig það getur þá axlað hana.“

Spurð hvort þetta hafi slæm áhrif á starfsemi Landspítala segir Sigríður að þetta málið fólk ekki við vinnuna sína. „Við reynum alltaf í öllum okkar störfum að láta ekki okkar persónulegu mál bitna á sjúklingum. Fyrst og fremst sinnum við sjúklingum okkar af öryggi og fagmennsku. En það er engum blöðum um það að fletta að fólk fer að velta fyrir sér sinni stöðu.“

Hún segir mikilvægt að skýra þessa óvissu sem upp er komin sem fyrst auk þess sem allir voni það besta í sakamálinu sem nú hefur verið höfðað. „En staðan er sú að skaðinn er skeður með útgáfu ákærunnar. Í kjölfar þess er fólk óvíst um stöðu sína og veltir fyrir sér hver sé næstur.“

Skoða hvort gera eigi hlutina öðruvísi

Eftir að málið kom upp voru teknar upp viðræður á milli Landspítala, landlæknis og velferðarráðuneytis um skoðun á því hvort setja þurfi sérstakan ramma í kringum atvik sem koma upp í heilbrigðiskerfinu. „Við erum búin að hittast og reifa málið. Í gangi er vinna við að setja málið í farveg. Það hefur ekki verið skipaður formlegur starfshópur en ég vona að til þess komi,“ segir Sigríður. „Við lítum það mjög jákvæðum augum að þessi umræða sé komin upp og að það verði skoðað og lagt kalt mat á það hvort þörf sé fyrir breytingar og þá hverjar.“

Hún segir að ekki sé búið að gefa sér neina niðurstöðu fyrirfram. „En það er eðlilegt við þessar kringumstæður að staldra við og horfa yfir sviðið og skoða alla möguleika, hvort það sé ástæða til að gera hlutina öðruvísi en við gerum þá í dag.“

Ekki hefur verið boðað til næsta fundar í viðræðunum en Sigríður segir að það verði gert í framhaldi af undirbúningsvinnu sem stendur yfir.

Sigríður Gunnarsdóttir.
Sigríður Gunnarsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert