Sjúkraliðar eru bjartsýnir á að samningar náist í dag en verkfall sjúkraliða og félagsmanna í SFR hófst klukkan átta í morgun. Verið er að fínpússa samninginn að sögn Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Félags sjúkraliða.
„Við erum að reyna að vinna mjög hratt,“ segir hún. Sjúkraliðar mæta þá aftur til vinnu í dag og verkfallinu yrði frestað þar til félagsmenn hafa tekið afstöðu til samningsins.
Fundur hefur staðið yfir í húsnæði ríkissáttasemjara síðan klukkan 9 í gærmorgun.
300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR lögðu niður störf í morgun. Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið nær til eru: Ás Hveragerði, Dalbær, Eir, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista í Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð.