Skrifað verður undir kjarasamning sjúkraliða og félagsmanna í SFR klukkan 10:45 í húsnæði ríkissáttasemjara en samkomulag náðist í kjaradeilunni rétt í þessu.
Verkfall sjúkraliða og félagsmanna í SFR hófst klukkan átta í morgun. Fundur hafði staðið yfir í húsnæði ríkissáttasemjara síðan klukkan 9 í gærmorgun í kjaradeilunni.
300 sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands ásamt um 150 starfsmönnum hjá SFR lögðu niður störf í morgun. Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið nær til eru: Ás Hveragerði, Dalbær, Eir, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista í Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð.