Þrettán karlmenn sem störfuðu hjá Byko, Húsasmiðjunni eða Úlfinum byggingavöruverslun neituðu sök fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Sérstakur saksóknari ákærði þá fyrir samkeppnisbrot framin á árunum 2010 og 2011. Skjöl málsins telja tæplega fimm þúsund blaðsíður.
Þröng var á þingi í dómsal 1 í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Sakborningar mættu allir ásamt verjendum sínum og voru tímanlega á ferð. Í salnum sátu menn þögulir í um tíu mínútur eða þar til heyrðist sagt: „Það þorir bara enginn að tala“. Uppskar sá hinn sami hlátur og léttist andrúmsloftið um leið.
Hópurinn var það stór að Ástríður Grímsdóttir, dómari málsins, bað sakborninga að rétta upp hönd, staðfesta kennitölu sína og heimili. Eftir nafnakallið var komið að því að taka afstöðu til ákærunnar.
„Saklaus. Lýsi ég mig,“ sagði sá fyrsti og á eftir fylgdu tólf karlmenn sem sögðu ýmist „ég neita sök“ eða „Ég neita alfarið sök“.
Málið er gríðarlega umfangsmikið og skjalafjöldinn tæplega fimm þúsund blaðsíður. Þá er ljóst að vegna fjölda sakborninga verður ekki hægt að reka málið í Héraðsdómi Reykjaness. Dómari málsins sagði til greina koma að hafa aðalmeðferðina í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur eða í Safnahúsinu (Áður Þjóðmenningarhúsið). Fari aðalmeðferðin fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þykir ljóst að aðgangur verði takmarkaður, þar á meðal aðgangur fjölmiðla, vegna plássleysis.
Hvað skjölin varðar þá óskaði dómari eftir því við saksóknara að hann taki saman þau málskjöl sem byggt verður á í málinu og greini þau. Er það hugsað til að auðvelda verjendum vinnu við greinargerðarskrif og til þess að ekki þurfi að leita í fimm þúsund blaðsíðum „út og suður eftir einhverju sem kannski á að byggja á en verður svo ekki nefnt,“ sagði dómari.
Næsta þinghald í málinu verður í lok júní og er það aðallega hugsað til að ákveða greinargerðarfrest. Dómari virtist annars áhugasamur um að flytja málið fyrir jól en verjendur höfðu um það efasemdir.
Fréttir mbl.is af málinu:
„Þetta eru orðin hjaðningavíg“
Húsleit hjá BYKO og Húsasmiðju
Öllum sleppt eftir yfirheyrslu