Skeifan verði hverfi með karakter

Svona gæti Skeifan litið út árið 2060 gangi hugmyndir hópsins …
Svona gæti Skeifan litið út árið 2060 gangi hugmyndir hópsins eftir. Mynd/Rúðuborg

„Stærsta áskorunin er að fá fólk til að vilja búa í Skeifunni. Því þegar maður spyr fólk í dag er svarið að enginn vill það,“ segir Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir þjóðfræðingur, sem vinnur nú ásamt hópi fólks að því að endurhanna Skeifuna með blandaða byggð í anda Meatpacking District og Soho í huga.

Hugmyndavinnan er hluti af verkefninu Hæg breytileg átt, sem er þverfaglegur vettvangur fólks með því markmiðið að varpa ljósi á nýja möguleika til vistvænni, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli. 

Skeifan er skilgreind sem eitt af lykil þróunarsvæðum í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030 og er gert ráð fyrir að þar verði í framtíðinni byggðar 500 íbúðir. „Þessar hugmyndir eru uppi, en það vantar útfærslu á hvernig er hægt að gera það,“ segir Sigrún Hanna. „Hvernig býr maður til hverfi sem er aðlaðandi og spennandi, á stað sem þykir óspennandi til búsetu?“

Samanburð á Skeifunni eins og hún er núna og eins og hún gæti orðið 2060 má sjá á myndum neðst í fréttinni.

Skeifan skemmtileg áskorun

Sem stendur er ekki einn einasti Reykvíkingur skráður til heimilis í Skeifunni, enda var lagt upp með að Skeifan yrði iðnaðarhverfi. Í dag eru þar um 240 fyrirtæki, bæði verslanir og iðnaður, auk eins helsta kennileitis Skeifunnar, bílastæðisins, sem þekur um 43% svæðisins.

„Í dag þarftu nánast að fara á bíl milli búðanna frekar en að labba, því það er óþægilegt og jafnvel hættulegt, veldur óöryggi,“ segir Sigrún Hanna. „Það er mikilvægt að hugsa til framtíðar um hvernig gera má borgina vistvænni og Skeifan var valin strategískt út frá því hvar við gætum haft mest áhrif, hvar inngrip gæti smitað mest út frá sér.“

Björn Teitsson, blaða- og fréttamaður og samstarfsmaður hennar í verkefninu tekur í sama streng. „Okkur fannst Skeifan vera mest áskorun, einmitt út af því að þetta virkar svolítið fráhrindandi hugmynd til að byrja með en býður við nánari skoðun upp á mjög mikla möguleika.“

Hann segir að atvinnuhúsnæði og skemmur eins og finna má í Skeifunni séu einmitt þess eðlis að vera sveigjanlegar, auðvelt sé að breyta þeim og byggja við þær. „Þetta er náttúrulega mjög sterkt verslunar- og þjónustusvæði og hugmyndin er alls ekki að hrekja neinn burt, heldur vinna með það sem fyrir er til að styrkja allt hverfið og hafa líflega byggð.“

Nýr miðpunktur í hjarta borgarinnar

Hópurinn bendir á að þrátt fyrir allt vinni ýmislegt með Skeifunni, ekki síst sú staðreynd að hún er vel staðsett nokkurn veginn í landfræðilegri miðju Reykjavíkur, með grænan Laugardalinn í næsta nágrenni, gróin skólahverfi í kring og greiðar samgönguleiðir í allar áttir.

„Draumurinn er að þarna yrði lífleg byggð með menningarstarfsemi, kaffihúsum eða börum, og um leið væri búinn til nýr miðpunktur fyrir t.d. Langholtshverfið og Bústaðahverfið, sem væru þá komin í sömu stöðu gagnvart Skeifunni eins og Hlíðar og Vesturbær eru með gagnvart miðbænum,“ segir Björn.

Búist er við að Reykvíkingum muni fjölga um 25.000 á næstu 20 árum, og ætla má að eftir því sem borgin stækkar skapist forsendur fyrir því að fleiri miðpunktar geti orðið til, þar sem íbúar sæki afþreyingu og félagslíf líkt og nú er í miðborginni.

Björn bendir á að flestar stórborgir í kringum okkur hafi fleiri en einn miðpunkt með mismunandi einkenni. „Í París sem dæmi eru svona litlir miðbæir út um allt. Þá er það bara hverfið þitt og þú þarft ekki að sækja neitt annað, en hefur samt valkost um það. Þarna væri verið að búa til aðra miðju og létta þannig álagi af miðbænum, án þess samt að taka neitt af honum.“

Hverfi með sterkan karakter

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir blandaðri byggð í Skeifunni, með verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Áhersla er á 3-5 hæða randbyggð, þar sem húsin standa mjög nærri götunni en með grænum svæðum á milli.

Sigrún Hanna bendir þó á að meira þurfi til en bara hús. „Það er ekki nóg að byggja bara blokkir og ætlast til þess að þá verði líf, það skiptir máli hvernig það er gert. Heimili snýst um meira en bara íbúðina, hverfið er líka hluti af heimilinu og við viljum reyna að ná því fram að almannarýmið verði eins og framlenging af íbúðinni þinni.“

Hópurinn vill meina að Skeifan gæti orðið hverfi með sterkan karakter. Þau draga upp líkindi með hverfum eins og Soho í London eða Meatpacking District á Manhattan, sem hvort tveggja eru mjög eftirsótt í dag. Í því síðarnefnda voru áður yfir 250 sláturhús, sem í dag hefur ýmist verið breytt í sérvöruverslanir, bari eða íbúðir.

„Fyrsta skrefið er að byggja upp einkenni á svæðinu og við viljum einmitt reyna að tengja við það sem er nú þegar til staðar,“ segir Sigrún Hanna. „Þegar verið er að skapa nýja ímynd hverfa er oft mikilvægasta skrefið að búa til svæði til samskipta, sem eru opin fyrir alls konar sköpun og gefa fólki færi á því að hafa áhrif á umhverfið sitt.“

Í þessu skini sjá þau fyrir sér að nýta einhverjar af skemmunum sem menningarhús eða aðstöðu fyrir vinnustofur eða verkstæði, þar sem gætu verið tónleikar eða kaffihús. „Við viljum ekki segja algjörlega fyrir um hvernig þetta á að verða, heldur frekar sýna fram á og opna fyrir möguleika fyrir skapandi fólk. Þau eru fræin sem eitthvað sprettur af. Við viljum reyna að höfða til þess að fjárfestum finnist aðlaðandi að koma og byggja þarna.“

Fjárhagsleg hagkvæmni og félagsleg gæði

Lokaskil á verkefninu eru 1. júlí og á menningarnótt, 21. ágúst verður sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur, ásamt verkefnum hinna hópanna sem vinna undir Hægri breytilegri átt. Fyrir forvitna verður þó kynning á verkefninu eins og staðan er núna á morgun, laugardag, kl. 10 í Iðnó. Á eftir verður opið hús í Gasstöðinni, þar sem hópurinn hefur vinnuaðstöðu.

Aðspurð hvort þessi framtíðarsýn fyrir Skeifuna sé draumsýn ein, eða hvort þau telji líklegt að hún verði að veruleika, segjast þau vongóð, enda sé verkefnið m.a. fjármagnað af Reykjavíkurborg, Samtökum iðnaðarins, Búseta og Félagsstofnun stúdenta, auk Auroru Hönnunarsjóði.

„Þetta eru samstarfsaðilar sem hafa sitthvað um málið að segja og gætu stuðlað að því að eitthvað gerist. Við leggjum líka upp með að sýna fram á að þetta sé fjárhagslega hagkvæmt og það haldist í hendur, fjárhagur og félagsleg gæði. Það er hagkvæmt að hverfi hafi rými til samveru og það sé gott að vera þar.“

Afstöðumynd af Skeifunni eins og hún er í dag 2014.
Afstöðumynd af Skeifunni eins og hún er í dag 2014. Mynd/Rúðuborg
Afstöðumynd af Skeifunni eins og hún gæti litið út árið …
Afstöðumynd af Skeifunni eins og hún gæti litið út árið 2060 skv. hugmyndum hópsins. Mynd/Rúðuborg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka