Búið er að taka skýrslur af tugum manna í tengslum við hópnauðgunarmál sem nú er á lokastigum rannsóknar að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar. Ekki liggur þó fyrir hvenær rannsókn verði formlega lokið og ákvörðun tekin um hvort senda eigi málið til ríkissaksóknara.
Fimm piltar á aldrinum 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí s.l. Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Myndbandsupptaka, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð stúlkunnar, að mati lögreglu. Stúlkan lagði sjálf fram myndbandsupptökuna þegar hún kærði hópnauðgunina.
Piltarnir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. maí en kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald var hins vegar hafnað. Friðrik Smári segir að niðurstöðuna ekki hafa bein áhrif á rannsóknina þar sem óskað hafi verið eftir því að þeir sættu gæsluvarðhaldi áfram með hagsmuni almennings í huga. Rannsóknarhagsmunir munu ekki vera lengur í húfi.