Um tvö hundruð manns eru á götunni á Íslandi. Þetta er ekki stór hópur en þetta er hópur sem þarf á aðstoð að halda. Málefni heimilislausra eru þeim Dagbjörtu Rún Guðmundsdóttur, Gunnlaugu Thorlacius og Katrínu Guðnýju Alfreðsdóttur ofarlega í huga en þær eru allar félagsráðgjafar og hafa starfað með fólki sem á við geðræn vandamál að stríða og glímir við fíkn.
Þær benda á mikilvægi þess allir sem koma að þessum málum hér á landi vinni saman og segja vandamál felast í því ef svo er ekki. Málið sé grafaralvarlegt og ákveðin keðjuverkun í gangi þar sem illa hafi gengið að útskrifa fólk úr endurhæfingu á Kleppi þar sem stundum bíði þeirra ekkert annað en gatan.
Þetta þýðir að ekki er hægt að senda fólk af geðdeild Landspítalans við Hringbraut í endurhæfingu á Klepp og um leið getur skapast vandi við að taka á móti sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á bráðageðdeild.
Meðal þeirra úrræða sem önnur lönd hafa gripið til nefnist Housing First og segir Katrín að rannsóknir sýni að kerfið virki en því miður eigi það ekki upp á pallborðið hér.
Ekki nóg að rétta fram lykil og segja gjörðu svo vel
Housing First gengur út á að sveitarfélög útvega félagslega illa stöddum einstaklingum, með áfengis- og vímuefnavanda, húsnæði og styðja þá í búsetu með þjónustu frá þverfaglegum sérfræðingateymum. Þannig fær íbúinn stuðning og hvatningu og búsetan verður farsælli fyrir einstakling og nærumhverfi. Ekki er krafist bindindis og íbúi borgar húsaleigu.
Katrín segir að miklu skipti að fólkið fær þann stuðning sem það þarf á að halda því það þýði lítið að taka fólk af götunni og rétta því lykil að íbúð og skilja viðkomandi síðan eftir án aðstoðar. „Margt af þessu fólki kann ekki athafnir dagslegs lífs, svo sem setja í þvottavél, sinna persónulegu hreinlæti og kaupa í matinn,“ segir Katrín.
Hún bætir við að rannsóknir erlendis frá sýni að þrátt fyrir að fólk fái íbúð þá sé það oft lengi áfram á götunni þar sem það þarf að aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta ferli getur tekið marga mánuði
Katrín segir að helst megi ekki minnast á þessi hugtök skaðaminnkun og Housing First hér á landi. Mikil áhersla sé á að viðkomandi sé hættur í neyslu en því miður takist það ekki öllum. Þeir endi því á götunni og hún spyr hvort þetta sé eitthvað sem við viljum, að henda ákveðnum þjóðfélagshópi á götuna þar sem hann glími við fíkn.
Dagbjört bendir á að þetta fólk sem um ræðir hafi kannski ekki haft aðgang að eigin húsnæði árum saman heldur búið á götunni eða inni á öðrum.
Að sögn Gunnlaugar er mikilvægt að sýna þessum aðlögunarfasa þolinmæði. Vandamálin eru ekki endilega úr sögunni þó svo að fólk fái húsnæði. Það verður að sýna fólki þolinmæði og mæta því þar sem það er statt og reiðubúið til,“ segir Gunnlaug.
Öll ríki í Evrópu nema Ísland og Tyrkland
Housing First telst til skaðaminnkandi hugmyndafræði en í grein sem Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, félagsráðgjafi ritaði nýverið í Fréttablaðið kemur fram að skaðaminnkandi hugmyndafræði er mannréttindahugsun sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til að þjóðir vinni eftir í mótun þjónustustefnu við áfengis- og vímuefnaneytendur.
Öll ríki í Evrópu, nema Ísland og Tyrkland, hafa skaðaminnkandi hugmyndafræði í opinberri stefnumótun í vinnu með áfengis- og vímuefnaneytendum. Þess má geta að Hjálpræðisherinn, Rauði krossinn og Landspítalinn vinna öll samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar. Í nálgun hugmyndafræði skaðaminnkunar er áhersla á að sýna fjölskyldum neytendanna sem og þeim sjálfum umhyggju og tillitsemi. Það ber að koma fram við áfengis- og vímuefnaneytendur af virðingu, sýna þeim þolinmæði og samþykkja alla einstaklinga eins og þeir eru en dæma þá ekki af hegðun sinni og gjörðum.
Í hugmyndafræðinni er lögð áhersla á draga úr þeirri skömm sem hefur fylgt því að eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Samkvæmt hugmyndafræðinni tapa vímuefnaneytendur ekki mannréttindum sínum með neyslu sinni. Þeir eiga rétt á heilsugæslu og félagsþjónustu og öðru því sem stendur til boða í hverju samfélagi. Þeir sem aðhyllast hugmyndafræði skaðaminnkunar mæla á móti neikvæðum viðhorfum og framkomu í garð áfengis- og vímuefnaneytenda. Þeir telja að neikvæð fram koma sé viðhöfð og réttlætt í skjóli þess að verið sé að framfylgja lögum og reglum til að koma í veg fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu.
Fólki mætt með þeirri virðingu sem hver einstaklingur á rétt á
Í skaðaminnkandi nálgun er einstaklingum mætt með virðingu og skilningi og ekki er gerð krafa um bindindi. Þessi nálgun er grundvallaratriði í þjónustu við hópinn og forsenda þess að ná traustu sambandi við einstaklinga og vekja von.
Dregið er úr skaða sem áfengis- og vímuefnaneysla veldur einstaklingum, lífsgæði þeirra aukast og samfélagslegur og fjárhagslegur skaði er lágmarkaður. Skaðaminnkandi hugmyndafræði er því þjóðhagslega hagkvæm, segir í grein Guðrúnar Þorgerðar.
Það sem meðal annars stendur í vegi fyrir að fólk fái húsnæði hér eru íþyngjandi reglur sveitarfélaga sem í sumum tilfellum kveða á um að þú þurfir að vera án vímugjafa í einhvern tíma áður en þú færð húsnæði. Það sem þér stendur til boða þangað til er að vera á götunni eða inni á öðrum og eru þær sammála um að það sé erfitt að setja sig í spor fíkla sem er gert að búa edrú á götunni í allt að sex mánuði. Þar viðgangist ofbeldi og ýmiskonar misnotkun samfara mikilli neyslu. Á sama tíma er þetta hópur sem ekki er háttskrifaður í samfélaginu og beitir óhefðbundnum leiðum til að koma sínu fram.
Vændi karlmanna og nauðgun á þeim er falið vandamál
„Konur eru í miklu færri en karlar í hópi heimilislausra og það eru ástæður fyrir því. Þær koma sér gjarnan í skjól hjá kunningjum þar sem gjaldmiðillinn er jafnvel kynlíf. Þannig að þær eru kannski ekkert sérstaklega sýnilegur hópur sem er grafalvarlegt mál,“ segir Gunnlaug.
Því miður eru oft ekki önnur úrræði í boði bætir Katrín við. Þær séu kannski ekki bara að selja kynlíf heldur alls konar aðra þjónustu, svo sem að hugsa um heimili fyrir þá gegn því að fá húsaskjól og fíkniefni í staðinn.
„Konur og ungt fólk er mjög falinn hópur,“ segir Katrín en lítið er talað um unga karlmenn sem eru í neyslu. „Þeir eru í stöðugri hættu og í raun meiri hættu en konurnar þar sem það er enginn sem heldur verndarhendi yfir þeim. Það þykir í rauninni ekkert tiltökumál að þeir séu misnotaðir og seldir.“
Vændi karlmanna og nauðgun á þeim er falið vandamál sem ekki er rætt um, segja þær og að samstaða sé um að þegja um málið. Bæði eru það mennirnir sem verða fyrir ofbeldinu og undirheimarnir sem eru samstíga, slíkir menn eru afar lágt settir í þessum hópi.
Ungir karlar eru í sérstökum áhættuhópi vegna þess harða kynlífs sem er í gangi og auðveldar smitleiðir. Lifrarbólga C smitast auðveldlega með slíku kynlífi og smitast mjög hratt um þessar mundir sem og aðrir langvinnir sjúkdómar. Dregið hefur úr smiti í gegnum sprautunálar og má það þakka góðum árangri af nálaskiptaþjónustu Frú Ragnheiðar og fleiri sem hefur verið í gangi frá 2009.
„Margir hafa leitt að því líkum að smitleiðirnar séu frekar kynlíf en sprautunálar“ segir Gunnlaug.
Eðlilega eru ólíkir einstaklingar í hópi þeirra sem eru heimilislausir. Sumir glíma bara við vímuefnavanda en aðrir við bæði vímuefna- og geðrænan vanda. Þær Dagbjört, Gunnlaug og Katrín segja lykilatriði að mæta fólki þar sem það er statt.
Mæta þarf fólki á jafnréttisgrundvelli
Ef fólk vill ekki hleypa stuðningsaðila inn til sín þá verður að taka því og reyna að mæta viðkomandi annars staðar. Því það fellur undir friðhelgi einkalífsins hvað þú gerir innan veggja heimilisins, svo sem hvort þú neytir fíkniefna inni á þínu heimili. En um leið og neyslan er farin að trufla nágrannana þá nær friðhelgi einkalífsins ekki yfir það. Það sem þú gerir heima hjá þér kemur ekki öðrum við en um leið og þú ferð að trufla aðra þá kemur það öðrum við, segja þær.
Dagbjört segir að það sé líka misjafnt hvaða þjónustu fólk þarf á að halda. „Við verðum að mæta fólki á jafnréttisgrundvelli ekki forræðishyggju,“ segir hún.
„Það sem vantar er samstarf sveitarfélaganna á milli ekki að hvert og eitt sé að starfa í sínu horni. Þetta er ekkert sérstaklega stór hópur sem þarf að veita aðstoð og það eru fjölmargir sem eru að veita aðstoð það vantar ekki. Eins eru að fara heilmiklir peningar í þennan málaflokk. En á meðan hver er í sínu horni og að gæta eigin hagsmuna, meðal annars þess fjármagns sem hann fær úthlutað frá hinu opinbera inn í málaflokkinn, gerist ekkert og fórnarlambið er alltaf sá heimilislausi. Það er sá sem þarf á aðstoðinni að halda,“ segir Katrín.
Það er í raun meira vandamál að halda utan um úrræði þeirra sem koma að lausnum fyrir fíkla og aðra þá sem þurfa á aðstoð að halda en að leysa vandann, segja þær Dagbjört, Gunnlaug og Katrín.
Viss samkeppni um fjármagn
Gunnlaug segir að tímaskortur geti skýrt þetta að hluta þar sem allir eru uppteknir við að sinna sínu í stað þess að horfa út fyrir rammann og vinna með öðrum. „Lítill timi gefst oft til að koma að stefnumótun og kannski ríkir viss samkeppni um fjármagn og ríkisstyrki,“ segir Gunnlaug og Dagbjört bætir við: Að með góðri verkstjórn væri hægt að koma á öflugri samvinnu og veita þeim sem mest þurfa á að halda góða þjónustu. Við erum ekki að tala um stærri hóp en um 200 manns, hóp sem á sér fáa málsvara “ segir Dagbjört.
Háð póstnúmeri hvaða þjónustu þú færð
Katrín segir að önnur sveitarfélög séu ekki að taka þátt í að aðstoða heimilislausa líkt og Reykjavíkurborg geri meðal annars með rekstri Gistiskýlisins og Konukots. Gistiskýlið getur í sjálfu sér vísað burtu körlum sem ekki eru með lögheimili í Reykjavík en auðvitað gerir það enginn ef það er pláss. Að því leyti er hægt að segja að fólki sé mismunað eftir póstnúmerum
„Það er háð póstnúmeri hvaða þjónustu þú færð,“ segir Gunnlaug og segir að þetta sé ekki nógu gott. „Við megum heldur aldrei gleyma því að utan um einn ógæfusaman einstakling er heil fjölskylda. Þetta er ekki vandamál nokkurra ógæfusamra einstaklinga heldur allra aðstandenda.“
En hvaða búsetuúrræði koma til greina?
Þær segja að það sé oft flókið að glíma við einstaklinga með tvígreiningar, það er að segja alvarlega geðsjúkdóma og fíknivanda. Sá sem er undir áhrifum vímugjafa getur verið til alls líklegur og það sé vel skiljanlegt að einhverjir setji spurningarmerki við að búa í sömu blokk og slíkir einstaklingar.
Geðraskanir ekki ávísun á vandræði
„Ég hef miklar efasemdir um að einungis sé horft til kjarna sem búsetuúrræða, þar sem fleiri en einum einstaklingi er úthlutað húsnæði í nágrenni við aðra sem glíma við svipuð vandamál. Það á einfaldlega að vera valkostur viðkomandi. Það er að það sé þitt að velja hvort þú velur að leigja herbergi, íbúð, áfangaheimili eða vera í sambýli með öðrum. En á sama tíma er það sjálfsögð krafa að þú farir eftir reglum í mannlegum samskiptum,“ segir Gunnlaug.
Enda séu yfirleitt þeir sem eru greindir með geðraskanir ekki hættulegir öðrum. Hins vegar sé hættan meiri þegar fólk er í neyslu. „Það eru auðvitað alltaf ýkt tilvik eins og við könnumst við úr fréttum en það verður aldrei hægt að búa til fullkomið kerfi.“
Dagbjört segir að því sé nú líka þannig farið að einstaklingur getur verið í neyslu og ekki troðið öðrum um tær. Jafnframt eru margir sem hafa engan áhuga á að búa í einhverri íbúð heldur myndi sætta sig við herbergi með aðgang að hreinlætisaðstöðu og félagsráðgjafa sem hægt er að ræða við. Í raun að fá þak yfir höfuðið svo þú eigir möguleika á að lifa með reisn. Það sé erfitt ef þín bíður ekkert annað en gatan eða greni.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði á málþingi Félagsfræðingafélags Ísland í apríl ekki væri hægt að fullyrða að markmið um vímuefnalaust Ísland árið 2002 hafi náðst.
„Í dag eru við fjær þessu markmiði en árið 1997 þegar það var sett,“ sagði Kristján Þór og bætti við að nauðsynlegt og brýnt væri að skoða nýjar leiðir á þessu sviði.
Þjónustan við fíkla endar oft á Landspítalanum sem er eitt dýrasta úrræðið
Hingað til hafa sveitarfélögin verið treg til að veita fíklum skaðaminnkandi þjónustu, alltaf er miðað við að viðkomandi sé ekki í neyslu.
Þetta þýði að hluti af þjónustu við fíkla endar á Landspítalanum sem er eitt dýrasta úrræðið og er það mikill kostnaður fyrir samfélagið í heild. Stundum er fólk því inniliggjandi á geðdeildum sem er fært til að útskrifast af Kleppi og fleiri deildum ef ekki eru til önnur úrræði fyrir þennan hóp. Það getur leitt til þess að erfitt er að taka við sjúklingum á geðdeildum Landspítalans sem virkilega þurfa á spítalaþjónustu að halda, segir Gunnlaug.
Katrín segist hafa verið á ráðstefnu um skaðaminnkun í Basel í Sviss þar sem meðal annars var rætt um svokölluð neysluherbergi sem úrræði fyrir fíkla en þangað geta sprautufíklar leitað til að neyta fíkniefna, fengið hreinar nálar og jafnvel rætt við félagsráðgjafa. Svisslendingar eru farnir að bjóða fíklum upp á slíka aðstöðu en neysluherbergin hafa gefið góða raun í Danmörku, Hollandi og í fleiri ríkjum Evrópu.
Vandamálið hverfur ekki þó svo það gangi gegn lögum
Í Sviss er fíkniefnaneysla ólögleg líkt og hér en ólíkt því sem er hér á landi þá horfast stjórnvöld þar við að vandinn er til staðar.
Í Danmörku eru á þriðja hundrað slík herbergi og vilja stuðningsmenn framtaksins meina að það hafi dregið úr dauðsföllum vegna ofneyslu.
Rasmus Koberg Christiansen, umsjónarmaður tveggja af þremur ríkisreknum neysluherbergjum í Kaupmannahöfn, segir þau viðurkenningu á ríkjandi ástandi. „Ekkert land hefur leyst eiturlyfjavandann. Það eru lönd sem útdeila dauðadómum vegna fíkniefnaneyslu en þau eiga samt við vandamál að stríða,“ segir hann.
Þeir sem eru fylgjandi herbergjunum segja þau m.a. draga úr því að sprautur og nálar séu skildar eftir á víðavangi og hamli útbreiðslu smitsjúkdóma. Þá benda þeir á að dregið hafi úr dauðsföllum vegna ofneyslu frá því að herbergin voru opnuð.
Danir hafa vakið athygli fyrir að vera fyrsta þjóðin í meira en áratug til að grípa til þessa ráðs í baráttunni gegn fíkniefnum. Framtakið virðist njóta almenns stuðnings og hefur mætt lítilli andstöðu.
„Þetta er betra en að vera á götunni,“ segir Kais Neni, 46 ára þriggja barna faðir, sem er háður kókaíni og heróíni. Hann er einn þeirra 2.400 einstaklinga sem hafa notað eitt herbergjanna í höfuðborginni frá því það var opnað en þangað leita daglega 500-800 manns.
Gagnrýnendur úrræðisins óttast að það muni gera fíklunum of auðvelt fyrir en þessu er Koberg Christiansen ósammála. „Þetta er afar erfitt umhverfi. Það er harðneskjulegt og það öðlast enginn hér auðveldara líf.“
Þrátt fyrir að um og yfir 200 manns séu á götunni á Íslandi þá telja þær Dagbjört, Gunnlaug og Katrín að litlar líkur séu á að einhver svelti eða verði úti. En því miður er ekki hægt að segja engar líkur því í október í fyrra varð maður úti en viðkomandi var í kynleiðréttingarferli og fékk ekki inni á þeim stöðum sem taka við fólki í neyslu þar sem þar er miðað við að annað hvort karlar eða konur fái gistingu.
Eins eru fá úrræði í boði fyrir pör sem eru á götunni því þau mega ekki gista á sama stað. Það sem pörum stendur til boða er að fá að gista í einhverju greni og það er eitthvað sem sumir velja frekar en að vera skilin að. Pör elska hvort annað þó svo þau séu í neyslu og vilja eyða nóttinni saman en því miður er það ekki í boði. Hins vegar eru þær sammála um að ekki sé sniðugt að pör fari saman í meðferð og kemur þar margt til. Meðal annars geti það verið óþægilegt fyrir aðra sem eru í meðferð og eins þarf að gera upp ýmsa hluti sem ekki er gott að makinn heyri.
Dagleg kannabisneysla að aukast og geðrof um leið
Að sögn Gunnlaugar virðist fíkniefnaneysla fara vaxandi meðal ungs fólks, bæði konum og körlum, og dagleg kannabisneysla sé að aukast. Það er oft flókið að fullyrða um hvort komi á undan eggið eða hænan en geðrof og kannabisneysla fari oft saman. Hvort sem viðkomandi neyti kannabis til þess að draga úr vanlíðan sem er til staðar eða kannabisneyslan leiði til þunglyndis og eða geðrofs.
Hér á Íslandi hefur aðalvandinn sem fylgir þessari neyslu verið sá, að stór hluti þeirra unglinga og ungmenna sem nota efnin á annað borð gera það daglega og verða félagslega óvirkir og stefna geðheilsu sinni í voða . Þau flosna þá upp úr skólum eða vinnu og eru í mikilli hættu að leiðast út í aðra og harðari vímuefnaneyslu, að því er segir í skýrslu SÁÁ.
Einstæðir karlar fá lítinn sem engan stuðning
Þegar horft er á hóp hinna heimilislausra þá spannar hann allt aldursrófið frá átján ára aldri. Kynjahlutfallið er svipað meðal ungs fólks en þær konur sem eiga börn njóta mun meiri stuðnings heldur en karlar svo sem í gegnum barnaverndarúrræði.
„Einstæðir karlar er hópur sem á gríðarlega erfitt. Þeir fá oft hvorki þann stuðning né samúð sem konur fá. Það er svo oft mikið vonleysi og niðurbrot sem þeir ganga í gegnum,“ segir Dagbjört.
„Málefni fólks sem á við geðraskanir og fíkniefnavanda að stríða eru flókin og í þó nokkrum ólestri,“ segir Gunnlaug.
30 greinast með alvarlegar geðraskanir á hverju ári
Að sögn Gunnlaugar var í kringum 2006 gripið til aðgerða með verkefni þar sem hluti af þeim peningum sem fengust fyrir söluna á Símanum og úr framkvæmdasjóði fatlaðra, um einn og hálfur milljarður króna, fóru að bæta hag þessa hóps. Með verkefninu var farið í að finna úrræði fyrir þennan hóp, til að mynda þá sem glíma við bæði fíkn og geðraskanir. Kjarnar voru byggðir upp meðal annars fyrir fólk með tvígreiningar. En síðan þá hefur ekkert verið gert ráð fyrir neinni nýliðun og staðan því orðin sú sama og hún var áður en farið var út í verkefnið fyrir um það bil átta árum.
Peningarnir eru til en það vantar samvinnu og hugarfarsbreytingu
Á ári hverju greinast um þrjátíu með alvarlega geðsjúkdóma hér á landi. Þar af eru kannski sjö sem þurfa á sértækri búsetu að halda. Fólk sem glímir við alvarleg vandamál til að mynda eru auk geðröskunar að glíma við fíkniefnavanda. Það að ekki sé gert ráð fyrir sjö úrræðum á ári fyrir þennan hóp.
„Það eru til peningar og það er til fólk til þess að vinna að verkefninu. Það sem vantar er samvinna, hugafarsbreytingu og langtímaáætlanir,“segja þær.
Þær Gunnlaug, Katrín og Dagbjört eru sammála um að það sé ekki lengur hægt að horfa fram hjá þessum hópi.
„Þetta er keðjuverkun sem við getum ekki staðið og horft hljóð á. Það verður að grípa til aðgerða. Samræmdra aðgerða því vandamálið er samfélagsins í heild,“ segja þær að lokum.