Harður árekstur varð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar í kvöld. Nokkrar bifreiðar lentu þar saman samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og þurfti að flytja þrjá á slysadeild. Slökkviliðið sendi þrjár sjúkrabifreiðar á staðinn og dælubíl.
Samkvæmt sjónarvotti varð slysið í kjölfar þess að bifreið sem lögreglan veitti eftirför vestur Suðurlandsbraut reyndi að fara yfir á gatnamótunum á rauðu ljósi. Við það lenti bifreiðin á annarri bifreið sem var að aka suður eftir Kringlumýrarbraut. Sú bifreið kastaðist við það aftur á bak og lenti á tveimur kyrrstæðum bifreiðum.
Þrír menn flúðu úr bifreiðinni sem lögreglan veitti eftirför eftir áreksturinn og hlupu í átt að Hátúni. Lögreglan hafði hendur í hári eins þeirra en sá fjórði virtist vera slasaður í bifreiðinni. Einn lögreglumaður veitti hinum eftirför á fæti. Tveir lögreglubílar komu síðan á staðinn til þess að taka þátt í eftirförinni. Kringlumýrarbraut hefur verið lokað frá Borgartúni að gatnamótunum.