„Þetta er ákveðinn áfangasigur í því sem við höfum barist fyrir, sem er að viðhalda stöðugleika í atvinnulífi á staðnum,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitastjóri Djúpavogshrepps, um ákvörðun Vísis hf. um að halda áfram starfsemi við ferskfiskvinnslu og frystingu á Djúpavogi í eitt ár. „Ég ætla að vona að við höfum haft einhver áhrif á þessa ákvörðun.“
Gauti segir að þetta þýði að það verði minni fækkun starfsmanna á Djúpavogi en til stóð. „Það verður einhver fækkun en ekki eins mikil. Það er vissulega jákvætt.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, kom á Djúpavog í dag. „Það var haldinn opinn fundur í hádeginu með honum og forstjóra Byggðarstofnunnar. Þar var farið yfir stöðu mála. Mér fannst ég finna skilning hjá ráðherra fyrir þeirri stöðu sem við erum komin í.“
Aðspurður segir Gauti að hann búist við því að fólk á staðnum sé fegið með þessa ákvörðun Vísis. „Ég hef nú varla náð að hitta nokkurn mann í dag en ég held að fólk sé fegið. Ég býst ekki við öðru.“
„Þessi ákvörðun er í samræmi við það sem við sögðum í upphafi, að við ætluðum að vinna með starfsfólkinu að lausn þessara mála. Það þarf einfaldlegra lengri tíma til að setja þær stoðir undir sem til þarf. Þetta var ákveðið bæði vegna þess og í ljósi umræðunnar undanfarið,“ segir Pétur H. Pálsson, framkvæmdarstjóri Vísís hf. um ákvörðunina. „Söltunin sjálf getur ekki beðið vegna aðstæðna í Suður Evrópu þannig við munum sameina söltunina undir eitt þak í Grindavík, en fækkun á Djúpavogi verður vissulega minni en upphaflega stóð til.“
Samkvæmt Pétri stefnir Vísir að því að það verði 30 til 35 manna vinnustaður Vísis eftir á Djúpavogi í haust. „Við erum núna að ræða við fólk um þetta, en allt er gert í eins mikilli sátt við sveitastjórn og fólkið á Djúpavogi eins og hægt er.“