Annie Mist Þórisdóttir, okkar fremsti CrossFittari, fékk höfðinglegar móttökur þegar hún sneri aftur heim til Íslands síðdegis í dag eftir frækinn sigur á Evrópumótinu í CrossFit, sem fram fór í Danmörku um miðjan maímánuð.
Tekið var vel á móti henni í CrossFit Reykjavík en Annie Mist er einmitt einn af eigendum stöðvarinnar. Að sögn Hrannar Svansdóttur, framkvæmdastjóra CrossFit Reykjavík, var byrjað á æfingu dagsins, sem Annie Mist stýrði, og síðan var grillað ofan í mannskapinn.
Íslendingar stóðu sig frábærlega á Evrópumótinu en bæði varð Annie Mist Evrópumeistari í einstaklingskeppni kvenna og þá fór CrossFitSport með sigur af hólmi í liðakeppni.
Það þýðir að Annie Mist mun keppa á heimsleikunum sem verða haldnir í Kaliforníu í lok júlímánaðar og eins þau Þuríður Erla Helgadóttir, Fríða Dröfn Ammendrup, Ingunn Lúðvíksdóttir, Davíð Björnsson, James William Goulden og Daði Hrafn Sveinbjarnarson, en þau skipuðu sigurlið CrossFitSport.
Það voru fleiri Íslendingar sem gerðu það gott í keppninni í ár en Björk Óðinsdóttir, sem keppti fyrir sænska CrossFit stöð, hafnaði í öðru sæti í kvennaflokki á eftir Annie Mist. Björgvin Karl Guðmundsson var síðan í þriðja sæti í karlaflokki en hann keppnir fyrir CrossFit Hengill í Hveragerði.