Fimm með MÓSA-smit

Frá Landspítalanum. Talsverður vandi skapast þegar loka þarf heilli deild.
Frá Landspítalanum. Talsverður vandi skapast þegar loka þarf heilli deild. Árni Sæberg

Fimm hafa greinst með MÓSA-smitið sem kom upp á smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi á föstudaginn, þar af þrír starfsmenn. Deildinni var lokað í gær, en þar liggja enn 13 sjúklingar, því ekki hefur fundist pláss á sjúkrahúsinu fyrir alla. Yfirlæknir deildarinnar segir að gera þurfi skýran greinarmun á smiti og sýkingu. Skima þarf á annað hundrað manns vegna þessa og kostnaðurinn sem fylgir er gríðarlegur, að hans sögn. Ekki er vitað hvernig smitið kom upp.

„Við greindum smit hjá nokkrum,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á deildinni. „Engum er hætta búin og það að vera með smit er ekki það sama og að vera sýktur, sem er töluvert alvarlegra ástand.“

Már segir að MÓSA-bakterían taki sér venjulega bólfestu á húðinni og geti gert það án þess að valda sýkingu. „Það köllum við að fólk hafi tekið smit. Við höfum greint smit hjá fimm einstaklingum, þremur starfsmönnum og tveimur sjúklingum, allir eru þeir smitaðir, enginn er sýktur. Engum er hætta búin af þessu, nema ef einhver þeirra sem hefur tekið smit fengi sýkingu og það hefur ekki gerst,“ segir Már.

Mikil áhrif á reksturinn

Enn eiga eftir að koma niðurstöður skimana, þannig að fleiri gætu bæst í hóp smitaðra, að sögn Más. Þeir sem hafa sýkst munu gangast undir meðferð sem felst í lyfjagjöf og smyrslum og tekur um viku. Starfsfólkið sem er smitað er nú heima í veikindaleyfi.

Már segir að smitið hafi mikil áhrif á rekstur deildarinnar og sjúkrahússins í heild. „Nú þurfum við að taka allt í gegn og þrífa hátt og lágt, loka heilli  21 rúma deild og finna sjúklingunum sem þar voru stað á öðrum deildum. Við erum ennþá að vinna í því því það er ekkert loft í okkar kerfi, við erum alltaf með 100% nýtingu og hér gengur maður undir mann að finna þessu fólki viðunandi stað.“

Enn eru 13 sjúklingar á deildinni

Deildin verður lokuð fram yfir næstu helgi, enn eru þar 13 sjúklingar og verið er að finna þeim annan stað. Takmörkun er á ferðum þeirra starfsmanna, sem eru þar að störfum, um sjúkrahúsið. „En það er ekki þannig að fólk sé einangrað eða neitt slíkt og það er ekki þannig að fólki í samfélaginu sé einhver hætta búin,“ segir Már.

Smitið greindist fyrst á föstudaginn í einum af sjúklingum deildarinnar. Már segir ekki vitað nákvæmlega hvernig það kom upp, viðkomandi hafði ekki sýnt nein einkenni, en smitið kom í ljós við reglubundna skoðun. „Við bundum vonir við að þetta væri afmarkaðra, en í gær kom í ljós að loka þyrfti deildinni.“

Hann segir að skima þurfi alla þá sem hafa starfað á deildinni undanfarna daga. Um sé að ræða á annað hundrað manns. Skimað er með stroki í nasir og háls fólks, en þar eru algengustu dvalarstaðir MÓSA-bakteríunnar.

Þurfa að fara yfir 100% nýtingu á öðrum deildum

Þessu fylgir talsverður kostnaður fyrir reksturinn, að sögn Más. „Og þegar við bætist hversu óhentugt þetta er fyrir starfsemina, okkur er svo þröngur stakkur búinn. Hér er allt rekið með fullri nýtingu. Það þýðir að þegar ein deildin dettur úr skaftinu, eins og við erum að gera núna, þá þarf að fara yfir 100% nýtingu á öðrum deildum. Það þýðir m.a. að fólk þarf að liggja í rúmum á göngum og það er bein ógn við öryggi sjúklinga og gæði starfseminnar. Það er ekki boðlegt fyrir nokkurn mann að þurfa að liggja á gangi, það er enginn inni á spítala  nema hann sé alvarlega veikur. Þannig að þetta er mjög vont mál.“



Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildrar Landpítalans, segir að um sé að …
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildrar Landpítalans, segir að um sé að ræða MÓSA-smit en ekki sýkingu. Á þessu tvennu sé mikill munur og engum sé hætta búin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert