Tveir starfsmenn á afleiðuborði Glitnis banka gátu ekki útilokað við skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær að hafa í nóvember 2007 fengið meldingu um valrétti, hvort sem er á minnismiða eða í gegnum spjallforrit, vegna lánveitingar til félagsins BK-44 og gleymt að færa hann í kerfi bankans.
Þetta kom fram eftir hádegi í dag við aðalmeðferð í BK-44-málinu svonefnda. Í því eru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum við 3,8 milljarða króna lánveitingu til eignarhaldsfélagsins BK-44 í nóvember 2007 og uppgjör á hlutabréfaviðskiptum sama félags í júlí 2008. Eftir viðskiptin sat Glitnis banki eftir með tveggja milljarða króna tap.
Ferlið var rakið á mbl.is í gær en þá var tekin skýrsla af sakborningum í málinu. Er meðal annars borið við að söluréttur vegna kaupa BK-44 á 150 milljón hlutum í Glitni hafi fyrir mistök ekki verið skráður í kerfi bankans. Það hafi uppgötvast þegar BK-44 seldi bréf sín í júlí 2008 og var þá ákveðið að félagið færi skaðlaust út úr viðskiptunum og bæri ekki hallann af handvömm starfsmanna.
Í dag komu fyrir dómara fyrrverandi starfsmenn Glitnis sem með einhverjum hætti tengdust viðskiptunum og lögreglumenn sem unnu að rannsókninni.
Meðal annars var tekin skýrsla af Sverri Erni Þorvaldssyni sem var forstöðumaður í áhættustýringu hjá Glitni árin 2007 og 2008 og ritari áhættunefndar. Hann var spurður út í tölvubréf Magnúsar Arnar Arngrímssonar, sem var framkvæmdastjóri á fyrirtækjasviði bankans, en hann er ákærður fyrir að hafa samþykkt lánveitinguna til BK-44.
Tölvubréf Magnúsar er eina gagnið í málinu um samþykkt lánveitingarinnar og hefur Magnús Arnar neitað að bera ábyrgð á samþykktinni. Hann hafi aðeins verið að miðla upplýsingum um samþykkt lánsins áfram og hafi fengið fyrirmæli um það frá sínum yfirmönnum.
Meðal annars var bréfið sent á Sverri Örn. Verjandi Magnúsar spurði Sverri hvort hann teldi líklegt að Magnús hefði sent afrit á hann ef hann hygðist fara framhjá áhættunefnd og samþykkja lánveitinguna upp á sitt einsdæmi. „Það var til þess fallið að ef einhver grennslaðist fyrir um þetta hjá mér þá hefði ég getað kannað það. Ég get því tekið undir það með þér að þetta er ekki til þess gert að draga fjöður yfir málið,“ sagði Sverrir.
Spurður hvort það hefði getað farið framhjá honum að þarna hafi verið selt um eitt prósent í bankanum sagði Sverrir: „Það getur vel verið.“
Guðmundur Hjaltason, sem þá var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, kom einnig fyrir dóminn, en hann var næsti yfirmaður Magnúsar. Hann sagði að Magnús hefði ekki haft heimild til að veita lán upp á fjóra milljarða. „Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Magnús hafi verið í góðri trú um að hafa fengið þessa heimild. Ég gat ekki veitt hana því hún hefði þurft að vera samþykkt af formanni eða varaformanni áhættunefndar, og hann gæti hafa haft samþykki þeirra án þess að ég vissi af því. Hann sendir þetta einnig á Sverri, greinilega til að láta skrá þetta í fundargerð áhættunefndar. Það er engin önnur ástæða fyrir því. Það var vinnuregla á þessum tíma að senda á Sverri.“
Sjálfur sagði Guðmundur ekki hafa neinar upplýsingar um það hver samþykkti lánið eða gaf fyrirmæli tengd viðskiptunum.
Jafnframt gaf skýrslu í dag Stefán Eiríks Stefánsson, sem starfaði sem sérfræðingur í gjaldeyrismiðlun hjá Glitni. Gjaldeyrismiðlun sá um peningamarkaðslán en það var form lánsins sem BK-44 fékk. „Hjá okkur var þetta mjög einfalt. Við höfðum samband við kúnna, bókuðum viðskipti í ákveðin kerfi og sáum svo ekki meira af þeim fyrr en á gjalddaga. Ef ekki var nægt fjármagn á reikningi höfðum við samband við kúnnann og báðum hann að lagfæra það, það er að segja ef hann ætlaði ekki að framlengja lánið.“
Spurður hvort lánin hefðu hugsanlega verið framlengd sjálfkrafa sagði Stefán það ekki hafa getað gerst. „Við vorum með ákveðna gjalddagalista og gjaldeyrismiðlun spurði kúnna hvort þeir ætluðu að framlengja eða ekki.“
Hann sagðist sjálfur hafa verið í beinum samskiptum við viðskiptavini en mundi ekki hver hafi beðið um lánamörk fyrir peningamarkaðslán BK-44, eða hvort Birkir Kristinsson, eigandi BK-44, hefði samþykkt kjör á láninu. Hann sagði ekki heldur muna hver hafi beðið um að lán BK-44 var ítrekað framlengt á árinu 2008.
Sérstakur saksóknari: „Varstu í samskiptum við kúnnann þegar þetta var framlengt?“
Stefán Eiríks: „Ég geri ráð fyrir því.“
Verjandi Elmars spurði hvort hann hefði getað framlengt lánið og sagði hann svo ekki hafa verið. Elmar hefði ekki haft heimild til þess. Samskiptin hafi verið beint við viðskiptavininn.
Einnig spurði verjandi Birkis út í þetta atriði og benti á að Birkir hefði sjálfur sagt fyrir dómi að hann hefði ekki verið í samskiptum við neinn hjá bankanum varðandi framlengingu lánsins. „Ég man ekki hvort ég var í sambandi við Birki út af peningamarkaðsláninu. Man ekki eftir neinum samskiptum við hann,“ sagði Stefán Eiríks.
Sá hinn sami staðfesti að starfsmenn Glitnis hefðu átt í miklum samskiptum á MSN spjallforritinu og að þau samskipti hefðu ekki verið skráð.
Tveir lögreglumenn frá sérstökum saksóknara komu fyrir dóminn og spurðu verjendur út í gagnaöflun og aðkomu regluvarðar bankans að rannsókninni. Ástæðan var sú að í kæru Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara vegna viðskipta BK-44 var regluvörður Glitnis á meðal þeirra kærðu. Hann fékk hins vegar stöðu vitnis eftir fyrstu skýrslutöku og voru rannsakendur í mestum samskiptum við hann vegna rannsóknarinnar og við öflun gagna hjá bankanum um málið.
Verjendur gagnrýndu þetta og bentu á að regluvörðurinn hefði þarna getað matað embættið af gögnum um aðra í málinu og stillt málinu upp sér í hag. Svaraði annar lögreglumannanna því til að margir hefðu þegar gefið skýrslu þegar kom að regluverðinum og taldist nokkuð góð mynd komin af málinu, sérstaklega eftir skýrslu Birkis sem hafi verið mjög upplýsandi.
Einnig kom fram hjá lögreglumönnunum að oft hefði gengið erfiðlega að fá gögn frá Glitni. Þannig hafi oft verið sagt að gögn væru ekki til en þegar spurt hafi verið að nýju hafi þau reynst til.
Aðalmeðferð í BK-44 málinu lýkur á morgun þegar fram fer munnlegur málflutningur.